Átakanleg umfjöllunarefni lituð húmor og mannskilningi

Mynd: EPA / EPA

Átakanleg umfjöllunarefni lituð húmor og mannskilningi

23.11.2020 - 12:29

Höfundar

„Þrátt fyrir átakanlegu umfjöllunarefnin; fátæktina, eineltið, áfengisfíknina, hómófóbíuna og andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldið, einkennist frásögnin af húmor, hlýju og djúpum mannskilningi,“ segir Fríða Ísberg um frumraun rithöfundarins Douglas Stuart, sem hlaut á dögunum Booker-verðlaunin.

Fríða Ísberg skrifar:

Á fimmtudaginn var, 19. nóvember, heyrðist hátt og skerandi gól um áttaleytið úr lítilli íbúð við Reynimel í Vesturbænum. Þetta hefur verið um það leyti sem formaður dómnefndarinnar, Margaret Busby, dró skáldsöguna Shuggie Bain upp úr svartri flauelsöskju og tilkynnti að Douglas Stuart hefði unnið Man Booker-verðlaunin árið 2020. Gólið var í eðli sínu fagnaðaróp, en vissulega blandið svolitlu snökti, svo ég flýtti mér að fylgja gólinu eftir með háværum hlátri, ef ske kynni að ég hefði skotið nágrönnum mínum skelk í bringu.

Af hverju svona sterk viðbrögð? Ja, einfaldlega af því að ég bjóst ekki við því að þessi bók myndi vinna en hélt jafnframt með henni. Shuggie Bain er fjögur hundruð og fimmtíu blaðsíðna doðrantur sem fylgir einni fjölskyldu í gegnum níunda áratuginn í Glasgow, í gegnum áratug af fátækt, alkóhólisma og hómófóbíu.

Þetta er fyrsta skáldsaga Douglas Stuart, sem er ljúfmæltur 44 ára fatahönnuður sem hefur alla tíð skrifað fyrir skúffuna. Hann hefur talað opinskátt um það í viðtölum að bókin sé sjálfsævisöguleg, að líkt og aðalkarakterinn Shuggie Bain var hann líka samkynhneigður unglingur sem ólst upp hjá einstæðri móður, sem lést af völdum áfengisneyslu. Útgefendur höfnuðu bókinni yfir þrjátíu sinnum áður en Grove Atlantic tók loksins við henni. Verðlaunin eru 50.000 pund, níu milljónir íslenskra króna. Það var ómögulegt að góla ekki, að samgleðjast ekki.

Eins og svo margar bækur, byrjar Shuggie Bain nálægt endinum. Við fáum að glugga inn í árið 1992 þegar sextán ára Shuggie býr einsamall í litlu leiguherbergi í suðurhluta Glasgow. Hann virðist vera umkomulaus, hann gengur ekki í skóla heldur vinnur við kjötborð í matvörubúð. Því næst er spólað til baka, til 1981 og þaðan hefst línuleg frásögn af örlögum fjölskyldunnar sem spannar allan áratuginn.

Agnes Bain, móðir Shuggie, er fallegasta konan í austurhluta Glasgow, ævintýraþyrst og óhamingjusöm. Hún er tvígift; hún fór frá öruggum, góðum, kaþólskum manni fyrir lúterska leigubílstjórann Shug Bain eldri, mann sem er lýst á eftirfarandi hátt: „Hann var alls ekkert olíumálverk, og hégómi hans hefði verið viðbjóðslegur ef hann hefði ekki verið svona heillandi.“ Hún og Shug Bain eldri búa inni á foreldrum hennar Agnesar ásamt þremur börnum. Eldri börnin tvö úr fyrra hjónabandi, Catharine og Leek, eru orðin unglingar, en Shuggie Bain yngri er fimm ára. Lesandinn fær fljótt að vita að Shug Bain eldri er kynlífsfíkill og ofbeldisfullur, hann raðheldur fram hjá Agnesi kvöld eftir kvöld, og Agnes drekkur til að deyfa sársaukann og vonbrigðin. 

Margret Thatcher er forsætisráðherra Bretlands og það er efnahagskreppa, þrjár milljónir manna eru án atvinnu, kolaiðnaðurinn er að hrynja. Shug eldri hefur ákveðið að fara frá Agnesi fyrir aðra konu, en hann vill ekki skilja hana eftir í öryggi foreldra sinna. Hann vill ekki að annar maður geti stigið inn síðar meir. Svo hann ætlar að brjóta hana fullkomlega niður fyrst. Hann selur henni hugmynd um að byrja upp á nýtt, að flytja í sætt úthverfi, þar sem hún fengi sína eigin útidyrahurð og eigin garð, en flytur svo með fjölskylduna í niðurnítt kolanámuhverfi langt fyrir utan borgina, þar sem allt er svart af kolaryki, atvinnulausir námumenn ganga enn þá í vinnugöllunum en sitja aðgerðarlausir á daginn og drekka bæturnar frá sér. Bitrar, lúnar og slúðurgjarnar konur reyna að halda samfélaginu gangandi.

Ekkert af þessu er samboðið Agnesi Bain, sem er með þráðbeinar falskar postulínstennur, klæðir sig eins og Elizabeth Taylor og talar ensku drottningarinnar. En þrátt fyrir að hún líti niður á nágrannakonur sínar og verkamannaskoskuna þeirra, er hún samt of stolt til að flytja aftur heim til foreldra sinna þegar Shug Bain yfirgefur fjölskylduna. Drykkjan ágerist dag frá degi, innan skamms er Agnes sjálf komin á kerfið og drekkur bætur sínar frá sér í byrjun hverrar viku.

Börnin hennar eru einu aðstandendurnir sem hún á eftir, og þau reyna hvað þau geta til að bjarga henni frá niðurlægingum fíknisjúkdómsins og þá sérstaklega, Shuggie, sem er háðastur henni af börnunum þremur. Nánast um leið og fjölskyldan flytur í hverfið er Shuggie hafnað af hinum börnunum, þau gera grín að yfirstéttarenskunni hans, vatnsgreiddu hárinu, snyrtimennskunni og fínlegum hreyfingunum. Hann er uppnefndur hommatittur áður en hann veit hvað það þýðir, og þrátt fyrir að hann reyni og reyni að haga sér eftir karlmennskustöðlum verkamannastéttarinnar, mistekst honum aftur og aftur; hann langar bara að leika með stelpudót og greiða hárið á mömmu sinni:

„Allavega, þú ert orðinn nógu gamall. Það er kominn tími til að þú reynir að falla meira í hópinn. Þú verður að reyna að vera meira eins og hinir krakkarnir.“

Shuggie sneri höfðinu og stundi upp: „Leek, ég er að reyna. Ég reyni og reyni. Þessir strákar láta skyrtuendana sína flagga upp úr buxunum eins og þeir kunni ekki að skammast sín, og það eina sem þeir gera er að sparka þessari heimsku blöðru fram og til baka. Ég hef meira að segja séð þá troða fingrunum neðst niður í buxurnar og þefa svo af þeim. Þetta er svo ... Þetta er svo ...“ Hann leitaði að orðunum. „Mikill almúgi.“

Leek sleppti takinu á honum. „Ef þú ætlar að lifa af, verður þú bara að reyna betur, Shuggie.“

„Hvernig?“

„Sko, í fyrsta lagi, aldrei segja almúgi aftur. Litlir strákar ættu ekki að tala eins og gamlar kerlingar.“ Leek ræskti sig. „Og þú ættir að reyna að passa hvernig þú gengur. Reyndu að vera ekki svona pjattaður. Það gefur bara færi á þér.“ Leek lék með ýktu látbragði hvernig Shuggie gekk. Fæturnir á honum beindust beint áfram, mjaðmirnar á honum dilluðu og vögguðu og handleggirnir á honum sveifluðust til og frá eins og þeir væru beinlausir. „Ekki láta fæturnar á þér krossa þegar þú gengur. Reyndu að búa til pláss fyrir punginn á þér.“ Leek tók utan um bunguna utan á buxunum sínum og spígsporaði fram og til baka í hálfu rigsi, hálfu letirölti. „Ekki beygja hnén svona mikið. Stígðu lengri, beinni skref.“

Þetta er margradda þriðju persónu frásögn sem flakkar á milli fjölskyldumeðlima, við sjáum sitt á hvað inn í huga Agnesar, Shuggie og systkina hans. Prósinn er vel skrifaður, lýsingarnar á borginni nákvæmar og myndrænar, stundum verður skoskan svolítið krefjandi og mállýskan líka. Það sem mér finnst einstaklega vel gert, er hin tvöfalda gagnrýni bókarinnar á samfélagið í Glasgow á þessum tíma. Bæði Shuggie og Agnes líta niður á verkamannastéttina; gagnrýna hugarfarið, eitruðu karlmennskuna, menntunarleysið, ofbeldið og glæpatíðnina, en á sama tíma víkkar bókin linsuna, veltir upp spurningum af hverju svona er ástatt fyrir samfélaginu og deilir á ákvarðanir stjórnvalda. Margaret Thatcher vildi loka námum sem voru ekki nógu afkastamiklar og reiða meira á innflutt eldsneyti, og oft og mörgum sinnum fær maður á tilfinninguna að sagan af Agnesi Bain sé ekki undertekning í þessari borg á þessu tímabili í sögunni, heldur aðeins ein rödd í gríðarstórum kór samfélags sem er að grotna niður.

En, þó Shuggie Bain kunni að hljóma eins og hráslagaleg og gleðisnauð bók, er hún það alls ekki. Þrátt fyrir átakanlegu umfjöllunarefnin; fátæktina, eineltið, áfengisfíknina, hómófóbíuna og andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldið, einkennist frásögnin af húmor, hlýju og djúpum mannskilningi. Agnes Bain, gallagripurinn sem hún er, er gríðarlega sympatískur karakter; hvernig hún glímir við móðurhlutverkið, vonbrigði sín, fíknina, karlmennina og slúðurklúbb hverfisins, sem kalla hana aldrei annað en hóruna. Lesandinn er í sömu von og óvon og Shuggie, og vonar með honum að Agnes losni úr vítahring drykkjunnar, og vonin knýr lesturinn áfram eins og eldsneyti.