Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Viðbrögð Trumps gætu orðið öðrum leiðtogum fordæmi

Mynd með færslu
Donald Trump. Mynd: EPA
Stjórnmála- og fræðimenn víða um lönd óttast að þvermóðska Donalds Trump við að viðurkenna ósigur sinn verði vatn á myllu valdhafa í ríkjum þar sem lýðræði er fallvalt.

Í samantekt AFP fréttastofunnar segir að búast megi við að slíkir valdhafar vísi til fordæmisins sem gefið hefur verið í valdamesta ríki heims þegar þeir vilja ríghalda í völd sín.

Tsjadmaðurinn Mahamat Ahmat Alhabo ritari stjórnarandstöðulokksins Frelsis og þróunar segir það styrkja leiðtoga margra Afríkuríkja í að koma kosningum þannig fyrir að engin hætta verði á að þeir tapi.

Eldred Masunungure stjórnmálafræðingur við háskólann í Zimbabwe tekur undir það og fullyrðir jafnframt að framkoma Trumps sé sem ljúfasta tónlist í eyrum einræðisherra. „Þetta er dapurlegt, við erum vön þessu hér en okkur er brugðið þegar eitthvað svona gerist í rótgrónu lýðræðisríki á við Bandaríkin,“ segir Masunungure.

Rússneski skákmaðurinn Garry Kasparov sem er stækur andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta segist óttast að svipað kunni að henda í kosningum í framtíðinni, jafnt í Bandaríkjunum sem annars staðar. „Það er draumur Pútíns að gera lýðræðið tortryggilegt,“ skrifaði Kasparov á Twitter.

Thomas Carothers, lögfræðingur og sérfræðingur í rannsóknum á lýðræðisþróun, nefnir nokkra leiðtoga sem hafa gert atlögu að lýðræðinu. Þar á meðal Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, og Andres Manuel Lopez Obrador forseta Mexíkó.

Sá síðarnefndi hafði uppi ásakanir um svindl í tvennum kosningum fyrr á öldinni eftir að hann tapaði. Obrador, sem hefur verið forseti Mexíkó frá 2018, er einn fárra þjóðarleiðtoga sem enn hafa ekki óskað Joe Biden til hamingju með sigurinn.

Aðrir sérfræðingar telja þó að skilaboðin sem heimurinn fær gætu þó verið þau að þrátt fyrir andstöðu Trumps muni stofnanir Bandaríkjanna tryggja að hann yfirgefi Hvíta húsið í janúar næstkomandi.

Oft hefur mikið gengið á í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Eftirminnilegast er sennilegast þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að George W. Bush hefði haft betur gegn Al Gore árið 2000. Niðurstaða réttarins var að 537 atkvæðum hefði munað á þeim í Flórída sem tryggði Bush forsetastólinn.

Í kosningunum 1960 gáfu Repúblikanar í skyn að kosningamisferli hefði tryggt John F. Kennedy sigurinn en Richard Nixon krafðist ekki endurtalningar. Hann sagði það vera slæmt fyrir orðspor Bandaríkjanna um víða veröld ef í ljós kæmi að hægt væri að ræna embættinu gegnum kjörkassanna.