Staðan góð og ánægjulegt hversu fáir eru í sóttkví

22.11.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
„Staðan er mjög góð,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna, í samtali við fréttastofu. Fimm greindust með COVID-19 í gær og allir sem greindust voru í sóttkví. Það er í fyrsta sinn síðan 11. september síðastliðinn sem ekkert smit greinist utan sóttkvíar.

„Þetta er mjög ánægjulegt og segir okkur að við erum að sjá árangur af þeim aðgerðum sem hefur verið ráðist í. En það geta auðvitað alltaf komið upp tilfelli og mér finnst fullsnemmt að segja að þessu sé alveg lokið hérna,“ segir hann.

Það sé sérstaklega ánægjulegt hversu fáir eru í sóttkví, enda gefi það fyrirheit um góða stöðu næstu daga. „Sem segir okkur það að þeir sem eru með þekkta útsetningu eru í rauninni fáir,“ segir Jóhann. 205 eru í sóttkví hér á landi og til samanburðar má nefna að þann 13. nóvember voru það 883 og 19. nóvember, fyrir þremur dögum, voru það 348.

Hann minnir þó á að það sé helgi og því hafi verið tekin fá sýni, aðeins 323 sem eru helmingi færri en í gær. „Fólk fer frekar í sýnatöku á mánudegi. Helgarnar hafa alltaf verið rólegri,“ segir hann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV