Snjóflóð féll í Ólafsfjarðarmúla

22.11.2020 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd: Ingvar Erlingsson - RÚV
Talsvert stórt snjóflóð hefur fallið í nótt eða í morgun rétt norðan við bæinn Karlsá í Ólafsfjarðarmúla. Flóðið stoppaði rétt ofan við veginn. Talsvert hefur snjóað til fjalla á þessum slóðum.

Ingvar Erlingsson, björgunarsveitamaður átti leið um veginn fyrr í dag og tók hann meðfylgjandi myndir. Hann segir að flóðið sé talsvert stórt, á að giska á bilinu 20 til 30 metra breitt. Ekki sé spurning um hvort að það hefði lokað veginum ef það hefði náð niður á hann. 

Hann segir að töluverð úrkoma hafi verið á þessum slóðum síðan í gær. Lítill snjór sé í byggð en greinilegt sé að úrkoman falli sem snjór til fjalla. Hann segist hafa orðið var við nokkur lítil flóð á leið sinni um Tröllaskaga í dag en þetta sé áberandi stærst. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV