Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nýgengi lægst hér – „Mikilvægt að vakta landamærin vel“

22.11.2020 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Nýgengi kórónuveirusmita í Evrópu er hvergi lægra en á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir að þróunin hér á landi sé á svipaðri leið og búist var við og sýni að samkomutakmarkanir hafi skilað tilætluðum árangri.

Megum ekki slaka of hratt

„Þetta er á svipaðri leið og við héldum. Við erum að nálgast þessi mörk sem við bentum á til viðmiðunar, svona fimm smit að jafnaði á dag. Ég held við ættum að ná því markmiði í nokkra daga áður en það verður farið að slaka á meira. Það er gott að huga að því að fara að slaka á í skólum, en byrja rólega og fara ekki of hratt í einu. Reynum að halda þetta út inn í byrjun desember,“ segir Thor. 

Smitum fjölgað hraðar í Evrópu en var spáð

Nýgengi hér á landi, þ.e. uppsafnaður fjöldi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur, er 54,5, en til samanburðar er það 154 í Noregi, 312 í Þýskalandi og 1.186 í Lúxemburg.

Aðspurður segir Thor að víða í Evrópu hafi smitum fjölgað mun hraðar en vísindamenn hafi spáð fyrir um. „Það var örugglega einhver sem hitti á það einhvers staðar, en almennt ekki. Við höfum horft til landa eins og Noregs sem hefur alltaf tekist að halda þessu svolítið niðri, þeirra bylgja er komin langt upp fyrir fyrstu. En það á eftir að koma einhver góð skýring á þessu öllu saman þegar þetta verður gert upp,“ segir hann. 

Alls ekki æskilegt að slaka á takmörkunum á landamærum

Hann telur ljóst að ekki sé æskilegt að slaka á takmörkunum á landamærum í bráð.

„Alls ekki, rannsóknir sýna það núna að það eru með öflugustu aðgerðunum. Og það er einmitt frábært að það verði gjaldfrjálst að fara í þessa tvöföldu sýnatöku,“ segir Thor og bætir við að fljótlega sé að vænta niðurstaðna úr alþjóðlegum rannsóknum um áhrif ólíkra sóttvarnaaðgerða. 

Smit erlendis rakin til þeirra sem ferðast

Hann segir að það þurfi að vakta landamærin mjög vel og að það sé mjög mikilvægt að þeir sem umgangist þá sem hafa verið að ferðast fari í skimun. „Af því að í þeim löndum þar sem gengur vel, eins og á Nýja Sjálandi, þá eru smit rakin að öllu leyti til þeirra sem ferðast, eða ættingja þeirra sem ferðast,“ segir Thor og bætir við að landamærin séu leiðin inn fyrir smit. 

Samsetning aðgerða sem skiptir máli

Nú þegar bóluefni er í augsýn, telurðu skynsamlegt að halda ströngum takmörkunum á landamærunum alveg þar til farið verður að bólusetja upp að einhverju marki?

„Þetta er mjög góð spurning. Því það er samsetning aðgerða, hún breytist og hvernig þær virka saman. Það er ekki nóg að hafa eina aðgerð, það er engin galdraaðgerð, það þarf að hafa margar í gangi og þegar aðstæður breytast þarf að meta stöðuna upp á nýtt. Það þarf ekkert að halda það að það sem við vitum núna eða virkar best núna, að það komi ekkert annað í staðinn,“ segir Thor. Þó sé klárt að það verði að hafa takmarkanir í gildi samhliða bólusetningu. 

Af hverju notum við nýgengi?

Nýgengi segir til um það hversu margir hafa smitast á hverja 100.000 íbúa á síðustu tveimur vikum. Hvað segir nýgengið okkur og hvers vegna er stuðst við tveggja vikna tímabil í samanburði milli ríkja?

Thor segir að með því að horfa á tveggja vikna tímabil sé smitatíðnin leiðrétt fyrir sveiflum og svo sé talan samanburðarhæf milli ríkja með því að horfa á tíðnina á hverja 100.000 íbúa. Því sé þetta gott viðmið og að nú stefnum við á að ná tölunni undir 25 til að verða aftur grænt ríki á listum annarra landa.