
Mikil reiði ríkir í landinu vegna nýsamþykktra fjárlaga sem gerir ráð fyrir geysiháum greiðslum til innviðauppbyggingar sem talið er muni renna beint til stórfyrirtækja.
Sérfræðingar benda jafnframt á að ríkið þarf að fá lán fyrir um þriðjungi þess fjár sem verja á samkvæmt fjárlögunum. Fátækt er landlæg í Gvatemala og talið er að helmingur barna undir fimm ára aldri búi við vannæringu.
Talsmaður Rauða krossins í Gvatemalaborg segir að nokkrir hafi þurft á aðhlynningu að halda vegna reykeitrunar af völdum brunans í þinghúsinu. Fjölmenn og friðsamleg mótmæli fóru fram í miðborginni á sama tíma og þinghúsið brann.
Þar var þjóðfána Gvatemala veifað og sjá mátti skilti þar sem kallað var eftir afsögn Giammatteis, afnámi spillingar í landinu og að þessi kynslóð léti ekki bjóða sér svona framferði.
Guillermo Castillo varaforseti kveðst hafa farið fram á það við Giammmatei forseta að þeir segðu báðir af sér. Forsetinn er 64 ára, læknismenntaður og komst til valda í janúar með loforðum um að berjast gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.
Þess í stað hefur hann legið undir ámæli fyrir slæleg viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum auk þess sem eftir því hefur verið tekið að þeir varaforsetinn iðulga á öndverðum meiði um hvernig bregðast hefði átt við faraldrinum.