Kennir nemendum á Tröllaskaga frá London

Mynd: Katrín Ýr Óskarsdóttir / Aðsend

Kennir nemendum á Tröllaskaga frá London

22.11.2020 - 14:00

Höfundar

„Að geta kennt heilum bekk á Ólafsfirði frá London er svoldið kúl,“ segir Katrín Ýr Óskarsdóttir tónlistarmaður sem býr og starfar í London. Þaðan kennir hún skapandi tónlist við Menntaskólann á Tröllaskaga. Í kennslunni tengir hún nemendur við sitt tengslanet í Bretlandi og hvetur þau til að fara út fyrir þægindarammann.

Áfangi Katrínar Ýrar við Menntaskólann á Tröllaskaga á þessari önn snýst um tónlistarviðburði og almennt um atvinnutækifæri í tónlist. „Ég er svona að reyna mitt besta að tengja þau við mitt tengslanet í London, þannig að ég fæ gesti til að koma inn og spjalla við þau og tala um feril sinn í Bretlandi. Og svo eru þau að halda sína eigin tónleika,“ útskýrir Katrín Ýr. „Þau fá alveg að ráða hvernig tónleikarnir eru og hvenær þeir eru og ég er bara svona til hliðar, og er í rauninni að kenna þeim mikið um mína reynslu,“ segir Katrín Ýr. Hún segir það höfðu verið ótal atvinnumöguleikar í tónlist sem hún hafði ekki áttað sig á að væru mögulegir, fyrr en hún flutti til London og út úr þægindarammanum.  

„Ég gerði mér grein fyrir því að flytja hingað að tónlistarheimurinn er minni en hann er og það að elta drauma sína er nær en maður gerir sér grein fyrir oft. Og það skiptir mig miklu máli að tengja þau við það að þetta er nær en þau gætu gert sér grein fyrir. Og það að elta drauma sína út fyrir þægindarsvæðið sitt er bara hrikalega skemmtilegur hlutur,“ segir Katrín Ýr.  

Fjarkennslan gerir heiminn minni

Katrín Ýr hafði ekki kennt mikið á netinu fyrr en COVID-faraldurinn braust út. Þá þurfti hún að byrja að kenna á netinu. „Og ég gerði mér þá einhvern veginn betri grein fyrir hvað heimurinn getur verið lítill,“ segir hún. „Og líka, Menntaskólinn á Tröllaskaga er svo framarlega þegar kemur að tækni að það var mun minna mál en ég gerði mér grein fyrir. Að geta kennt heilum bekk á Ólafsfirði frá London er svoldið kúl, “ segir Katrín Ýr. 

Fjarkennsla er ekki ný af nálinni í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Fjar- og staðkennsla hefur verið samtvinnuð allt frá stofnun skólans árið 2010. Nemendur og kennarar eru staðsettir um allt land og allan heim. Stofnunin var í ár tilnefnd til íslensku menntaverðlaunanna fyrir „nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meðal nemenda Katrínar í skapandi tónlist eru þeir Tryggvi og Júlíus sem sigruðu Söngkeppni framhaldsskólanna ásamt hljómsveit sinni.

Nemendur á fullu að undirbúa styrktarónleika

Katrín Ýr segist finna fyrir miklu frelsi í kennslunni við Menntaskólann á Tröllaskaga, sem er ólíkt því sem hún upplifir við að kenna nemendum í breskum skólum. „Í Bretlandi er mikil áhersla á að þú kennir það sem þér er sagt að kenna og mikil ábyrgð sett á kennarana að passa að krakkarnir læri, í rauninni. En eins og Menntaskólinn á Tröllaskaga er settur upp, þá er öðruvísi kennslufræði og ég hef meira frelsi að nýta það.“

Verkefnaskil við skólann eru til dæmis af ýmsum toga og alls ekki alltaf skrifleg. Í áfanga Katrínar Ýrar hafa nemendur til dæmis skilað verkefnum í myndbandsformi, sem hlaðvarp og tekið upp tónlist. Lokaverkefni áfangans er svo tónleikar í beinu streymi sem nemendur skipuleggja allt sjálfir. Tónleikarnir verða í desember og verða styrktartónleikar fyrir Krabbameinsfélagið á Akureyri. „Og ég er hrikalega spennt að sjá hvað kemur út úr þessu, því að þau eru svo metnaðarfull,“ segir hún. 

Hefði sjálf viljað vera í svona skóla

Katrín Ýr byrjaði að kenna við Menntaskólann á Tröllaskaga þegar hún hélt námskeið í skapandi tónlist í svokallaðri miðannarviku. Þá fellur hefðbundin kennsla niður og nemendur skólans fást við ný og fjölbreytt verkefni og njóta leiðsagnar nýrra kennara. Aðspurð segist hún hafa verið mjög til í að vera í menntaskóla eins og Menntaskólanum á Tröllaskaga. 

„Í fyrsta skipti sem ég kenndi miðannarviku þá hugsaði ég: Vá, hvað ég hefði verið til í að vera í svona skóla. Því ábyrgðin er á nemandanum að læra, en á svo yndislegan hátt einhvern veginn. Það er svo vel stutt við nemendur.“ Til samanburðar rifjar hún upp reynslu sína af framhaldsskólanámi. „Það var bara verið að tala einhvern veginn ofan í mann. Og mér fannst ég oft ekki ábyrg á því að þurfa að læra. Það var einhvern veginn: Hlusta, muna, skrifa niður á prófi, búið,“ rifjar hún upp. 

„Mér finnst ég rosalega heppin að fá að vinna á stað þar sem ég fæ að nýta það sem ég kann, það sem ég hef reynslu í , og nýta það sem ég hef þekkingu í,“ segir Katrín Ýr. 

Rætt var við Katrínu Ýri Óskarsdóttur í Sögum af landi á Rás 1, þar sem fjallað var um starfsemi Menntaskólans á Tröllaskaga. Viðtalið við Katrínu Ýri má finna í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Menntamál

Segir fjarnám erfitt og marga fresta útskrift

Tónlist

Tryggvi og Júlíus frá Tröllaskaga unnu Söngkeppnina

Menntamál

Nemendur vilja betri lausnir en fjarnám

Norðurland

Menntaskólinn á Tröllaskaga vel undirbúinn undir COVID