Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hagræðingarkröfur hættulegar í miðjum heimsfaraldri

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
„Það er hættulegt að leggja stífar aðhalds- og hagræðingarkröfur á heilbrigðisþjónustu í miðjum heimsfaraldri og þessu þarf Alþingi að breyta,“ skrifar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í færslu á Facebook.

Með færslunni bregst Logi við umfjöllun gærdagsins um 4,3 milljarða króna hagræðingarkröfu á Landspítalann á næsta ári. Hann kallar eftir því að þingmenn sameinist um að hindra skerðingu á þjónustu Landspítalans við sjúklinga á tímum heimsfaraldurs.

„Í stað þess að ráðist sé í átak gegn undirmönnun eins og við í Samfylkingunni höfum kallað eftir stefnir í að Landspítalinn verði knúinn til ráðstafana á borð við að seinka sumarráðningum lækna,“ skrifar hann. 

Niðurskurður skerðir þjónustu við sjúklinga

Spítalinn hefur óskað eftir því að fá að vinna niður hallann á þremur árum og þá þyrfti spítalinn að hagræða um rúmlega 1,4 milljarða á næsta ári. Í fjárhagsáætlun spítalans segir að það sé mat spítalans að lengra verði ekki gengið án þess að skerða verulega getu spítalans til að sinna hlutverki sínu sem aðalsjúkrahús landsins.

Þó sé ljóst að rúmlega 1,4 milljarða króna niðurskurður, sem spítalinn leggur til, muni skerða þjónustu við sjúklinga; þannig takmarkist geta sjúkrahússins til að vinna niður biðlista vegna COVID-19.

Aðhaldskrafa tryggi nýtingu fjármuna

Í gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024 er mælt fyrir um 2 prósenta almenna aðhaldskröfu á starfsemi hins opinbera fyrstu þrjú árin, nema á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla þar sem aðhaldskrafan er 0,5 prósent og á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratryggingar og dómstóla þar sem aðhaldskrafan er engin.  

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að almenn aðhaldskrafa hjá hinu opinbera sé leið til að tryggja að fjármunir nýtist sem best. „Ég ætla bara að segja að þegar ein ríkisstofnun veltir um 70 milljörðum er ekki óeðlileg krafa, þegar við verðum öll að leggjast á eitt við að nýta hverja einustu krónu eins vel og hægt er, að reyna að finna leiðir til að spara slíkar fjárhæðir. Það er gegn loforði um að allt sem leggst nýtt á viðkomandi stofnanir vegna faraldursins og er sérstaklega Covid-tengt, eins og við orðum það í almennri umræðu, verði fjármagnað,“ sagði hann um Landspítalann í ræðustól Alþingis í lok ágúst.

Logi fagnar áfangasigri 

Í færslunni segir Logi nýjustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar tilefni fyrir Samfylkinguna og verkalýðshreyfinguna til að fanga áfangasigri. „Við erum sérstaklega ánægð með að barnabótaaukinn til atvinnulausra, sem Samfylkingin lagði til og fékk samþykktan á Alþingi í vor, verði framlengdur. Eins eru aðgerðir til að draga úr skerðingum og lækka jaðarskatta barnafjölskyldna og örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og efla virkniúrræði fyrir jaðarsetta hópa mikilvægar og í takt við áherslur sem Samfylkingin setti fram í ritinu Ábyrga leiðin í haust.“ Það sé fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi „séð að sér“ og hækkað atvinnuleysisbætur .

Hann telji þó að þörf sé á heildstæðri áætlun um að fjölga störfum, vinna gegn undirmönnun í almannaþjónustu og renna styrkari stoðum undir verðmætasköpun og heilbrigða samkeppni á Íslandi. Þá sakni hann kjarabóta fyrir tekjulitla eldri borgara.