Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Finnsk farþegaferja strandaði við Álandseyjar

22.11.2020 - 04:35
Finnska farþegaferjan Grace á vegum Viking Line strandaði við Álandseyjar 21. nóvember 2020. Engin hætta var á ferðum en farþegar urðu að dvelja næturlangt um borð.
 Mynd: Niclas Nordlund
Finnska farþegaferjan Grace strandaði í gær, skömmu áður en hún kom til Maríuhafnar á Álandseyjum. Um borð eru 331 farþegi og 98 manna áhöfn.

 

Ferjan var á áætlunarsiglingu milli Turku í Finnlandi og Stokkhólms þegar atvikið átti sér stað. Engin hætta er á ferðum að sögn fulltrúa finnsku strandgæslunnar og tryggt er að ekki hefur komið leki að ferjunni.

Að sögn talskonu Viking Line væsti ekki um farþegana en þeir þurftu að verja nóttinni um borð. Þeir verða fluttir um borð í aðra ferju síðar í dag sem flytur þá áfangastað. Vegna stormviðvörunar á Eystrasalti var sú ákvörðun tekin að sigla með Grace frekar en talsvert minni ferju sem upphaflega átti að nota. 

Grace er 218 metra langt skip, smíðað árið 2013, sem getur tekið allt að 2.800 farþega og 550 fólksbíla. 
 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV