Elísabet Englandsdrottning er Íslendingum að góðu kunn enda kom hún hingað til lands fyrir þrjátíu árum. Hún skoðaði hesta og gróðursetti tré. Það kemur því ekki á óvart að þættirnir The Crown á Netflix, sem fjalla um konungsfjölskylduna, njóti mikilla vinsælda hér á landi. Þættirnir hafa hins vegar verið harðlega gagnrýndir í Bretlandi fyrir að fara mjög frjálslega með staðreyndir og hafa verið kallaðir falssagnfræði í stíl við falsfréttir. Afdrifaríkir atburðir í þáttunum séu sumir uppspuni frá rótum - til að mynda hafi Mountbatten lávarður, daginn áður en hann dó ekki skrifað Karli Bretaprins bréf. Þá hafi Díana prinsessa ekki með æðiskast í Ástralíu þvingað fram breytingu á ferðaáætlun. Karl fær litla samúð í þáttunum.
„Hann er gerður að hálfgerðu eigingjörnu skrímsli. Þetta var ekki alveg svona. Það var meiri nánd á milli þeirra. En ég held að þetta komi kannski verst út gagnvart Vilhjálmi og Harry. Þetta hlýtur að ýfa upp alveg ofboðslega mörg sár,“ segir Ragnheiður Elín Clausen, áhugamanneskja um bresku konungsfjölskylduna.
Stjórnmálamenn í Bretlandi, sérfræðingar og fleiri hafa krafist þess að Netflix vari áhorfendur við að þættirnir séu ekki sannleikanum samkvæmir.
„Að stofninum til byggir þetta á góðri heimildavinnu. Það er verið að fjalla um raunverulega atburði og raunverulegar persónur. Það er gert á þann hátt að það virðist vera trúverðugt,“ segir Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Ragnheiður Elín segir marga gleypa við þáttunum og líta á þá sem raunverulega heimild. „Maður sér á Facebook núna það eru margir að horfa og fólk segir: nú er ég endanlega sannfærð um að það á að leggja þetta niður, þetta er nú meira pakkið, ofsalega eru þau vond við Díönu,“ segir Ragnheiður Elín.