Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Býst við að hægt verði að kynna tilslakanir eftir viku

22.11.2020 - 18:58
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hér á landi er nú lægsta nýgengi kórónuveirusmita í Evrópu. Yfirlögregluþjónn þakkar það samstöðu almennings og býst við að hægt verði að kynna tilslakanir eftir viku.

 

Fimm smit greindust innanlands í gær, öll í sóttkví. Það er í fyrsta sinn síðan 11. september sem ekkert smit greinist utan sóttkvíar - en rétt er að taka fram að það eru alltaf færri skimaðir um helgar. „Eins og áður þá vörum við við þessum tölum um helgar. Það eru fá sýni í gær. Við þurfum að eins að sjá til en þetta er bara þessi þróun, þetta er jákvætt. Síðan sjáum við auðvitað þessa þróun í fjórtán daga nýgenginu - það lækkar nokkuð örugglega,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.

Nýgengi smita á Íslandi, það er heildarfjöldi smita síðustu tvær vikur á hverja 100 þúsund íbúa, eru nú það lægsta í Evrópu, eða tæplega 55. Víðir þakkar þennan árangur samstöðu almennings eftir að enn var hert á samkomutakmörkunum. „Menn vildu keyra þetta niður og það er bara að skila árangri núna.“

Tilslakanir líti betur út núna en fyrir tveimur vikum

Samkomutakmarkanir hafa miðast við tíu manns í um þrjár vikur. Núverandi takmarkanir gilda til og með 1. desember. „Það er ekkert mjög langt í það. Það er hættumat í gangi núna til að meta hvað er til ráða þá. Þórólfur mun örugglega vinna það í vikunni. Það þarf að kynna það upp úr næstu helgi. Það eru hugmyndir um að slaka á einhverju. Vonandi ef þetta heldur svona áfram verður hægt að rýmka ýmislegt sem gerir það að verkum að við getum haldið jólin í skárra formi en við héldum fyrir tveimur vikum síðan.“

Embætti landlæknis hefur tekið saman fimm daga meðaltal greindra smita í bylgjunum tveimur. Töluvert lengri tíma hefur tekið að koma þriðju bylgjunni niður en þeirri fyrstu. 

„Þá var miklu minna um stór hópsmit eins og við höfum séð núna. Svo undanfarið sjáum við þessi klasasmit sem við erum að kalla þar sem 6-10 manns eru að smitast í kringum eina staðsetningu. Það er miklu mera um svoleiðis en var í vor.“

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV