Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Utan úr heljarmyrkri framtíðarinnar

Mynd: - / Forlagið

Utan úr heljarmyrkri framtíðarinnar

21.11.2020 - 10:00

Höfundar

„Höfundur í algjörum sérflokki sendir hérna frá sér sína bestu bók,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson, gagnrýnandi, um nýjustu bók Steinars Braga, Truflunina.

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Þau voru þrjú lögmálin sem íslenskir bókaunnendur gátu gengið að sem vísum langt fram að árþúsundamótum: að hin ódýra pappírskiljubylting 19. aldar léti þá í friði, að Laxness færi aldrei á útsölu og að hér á landi væru aðeins skrifaðar fagurbókmenntir. Undir fagurbókmenntaskilgreininguna mátti í raun fella allt sem frá íslenskum rithöfundum kom, nema ef um konu var að ræða, flokkunarfræðin urðu auðvitað aðeins flóknari í tilviki kvenhöfunda þar sem þá opnaðist fyrir möguleikann á kellingarbókmenntum sem hliðartegund. En greinabókmenntir þekktust ekki í innlendri bókaframleiðslu, glæpasögur, hrollvekjur, spennusögur, kúrekabækur og fantasíur voru til og mátti finna í útlöndum, menn viðurkenndu það en bentu í sömu andrá á að þar væru slíkar bókmenntir iðulega gefnar út í kiljum, sem ekki gæti vitað á gott. Íslenskir lesendur voru því miður ekki jafn staðfastir í trúnni og rithöfundastéttin og virtust meira en reiðubúnir að leggja lag sitt við undirmálsbókmenntir af ýmsu tagi. Við eftirspurninni var orðið, enda þurfti að niðurgreiða fagurbókmenntirnar með einhverjum hætti, og Alistair McLean og Desmond Bagley voru gefnir út í þýðingum – en til að milda höggið voru útgáfurnar ávallt samræmdar og innbundnar. Stephen King bættist í hópinn ásamt öðrum og allir undu sáttir við sitt, – eða þangað til að Arnaldur Indriðason gerðist. Aldarfjórðungi síðar er glæpasagan blómlegust íslenskra bókmenntagreina, og innlendar fantasíur og furðusögur, skvísusögur og hrollvekjur verma plássið í bókabúðunum í selskap við fagurbókmenntirnar. En Halldór sést ekki á útsölum, enn er einhverju að treysta.

Þessu má svo öllu stilla upp í enn gildishlaðnari söguframvindu, annað hvort sem jákvæðri: framtíðin er björt, fjölbreytni er frelsi og áfengið mun skila sér í kjörbúðirnar, eða neikvæðri: og hvert leiddi þetta allt, væri þá spurt, annað en lóðbeint í Trump? Fólk heldur að Marvel-myndir séu fyrir fullorðna og engin les ljóð lengur. Við ætlum hins vegar að víkja okkar undan slíkum stóradómi en halda kannski í ákveðið þakklæti fyrir greina svigrúmið sem hefur myndast og beina þar sjónum okkar sérstaklega að Steinari Braga, rithöfundi sem nýtt hefur svigrúm þetta á býsna einstakan máta sé litið til íslenskra samtímabókmennta.

Haustið 2008 sendi hann frá sér Konur, spennuhrollvekju sem stillti sér upp sem myrkri spegilmynd inntakslausa ávarpsins sem lauk með orðunum „Guð blessi Ísland“, og þessi grimmilega úttekt á „þverþjóðlegri viðskiptakarlmennsku“, eins og það hefur verið orðað, varð í rauntíma fyrsta hrunbókin og er enn þá sú besta. Í Hálendinu kaus Steinar Bragi hruninu táknbúning hrollvekjunnar, sem kannski villti mönnum sjónir að einhverju leyti þegar að viðtökunum kom. Femínískur strengur bókarinnar á undan, sem fjallaði ekki síst um menningarlega úrvinnslu karla á ofbeldi gegn konum, var svo endurlífgaður í Kötu árið 2014, en henni má lýsa sem úttekt á nauðgunarmenningu í formi glæpasögu eða sem tæplega 500 blaðsíðna reiðiöskri. Hérna langar mig til að staldra við og ítreka greinafræðilegu fjölbreytnina sem fyrir okkur liggur og nefna svo að nýjasta skáldsaga Steinars Braga, Truflunin, er vísindaskáldskapur. Í frumskógi greinanna er Steinar Bragi eins og Tarsan, hann sveiflar sér fimlega á milli eins og honum sýnist og í ljósi útkomunnar í hvert sinn er eins og ég nefndi hér áðan full ástæða til þakklætis fyrir svigrúmið sem hann hefur.

Truflunin gerist í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2034, og sögusviðið er miðbær Reykjavíkur, raunar erum við hérna á mjög svipuðum slóðum og í fyrstu skáldsögu höfundar, Áhyggjudúkkum, en í nýju bókinni hefur heimurinn kvíslast í tvær víddir sem einungis snertast á litlu svæði um og í kringum Skólavörðuholt. Þetta svæði, sem gengur undir nafninu Truflunin, er vandlega afgirt og innmúrað af bandaríska hernum og NATO, flugumferð yfir borginni er bönnuð, og íbúum hefur auðvitað verið sópað burt, hver einasti metri er vaktaður af myndavélum og byssum, leyniskyttur eru á þökum og nær hundrað manneskjur hafa verið skotnar í tilraun til að komast inn í „hjúpinn“, veruleikalagið sem skilur milli heimanna og múrað hefur verið í kringum, en í gegn fara aðeins „agentar“, sérsveitarmenn sem sendir eru milli heima í þekkingarleit. Þegar verkið hefst eru fjögur ár liðin í umheimum síðan truflunin átti sér stað, en aðeins tveir dagar inni í trufluninni sjálfri. Vitað er að tíminn líður margfalt hægar þar, og aðalsöguhetja verksins, félagssálfræðingurinn Halla, er að lokinni langri þjálfun að leggja af stað í gegnum hjúpinn. Hennar verkefni er að grafast fyrir um örlög Agents F, háttsetts útsendara sem dvalið hafði í trufluninni en horfið skyndilega, eftir að hafa sent skilaboð aftur til bækistöðva sem ugg vekja meðal þeirra sem þau sjá – dálítið eins og Kurtz gerði í skáldsögu Josephs Conrad. Það er reyndar meira en að segja það að fara í gegnum hjúpinn, og það veit Halla. Helmingur þeirra sem reyna deyja strax í fyrsta skrefinu, aðrir komast aðeins lengra og deyja svo. Að komast alla leið er undantekning, en takist það verður ekki aftur snúið og áhrif dvalarinnar í sjálfu sér ókunn. Vinnukenningin er að Agent F hafi misst vitið, svo það er inni í myndinni, að dvöl valdi geðrofi. En ef svarið er ekki svo einfalt, hvað var það þá sem olli því að Agent F brotnaði?

Það er með svona tælandi og fyrirhafnarlausum hætti sem við erum dregin inn í frásögnina, það er firnakraftur sem leikur um hana og drífur áfram alveg frá byrjun. Ráðgátan gerir heldur ekkert nema dýpka og verða blæbrigðaríkari eftir því sem á líður. Ekki skyldi heldur horfa fram hjá vinnunni sem felst í að ná tökum á framandgervingunni sem liggur skáldsögunni til grundvallar og ljá henni raunsæislega umgjörð, sem felst meðal annars í að miðla smáatriðum er tengjast stöðu tvíheimanna, stofnanalegu umgjörðinni utan um verkefni Höllu, endurskapa fas fagfólks er stendur frammi fyrir hinu óskiljanlega en hefur verkferlum að fylgja, en þetta gerir Steinar Bragi óaðfinnanlega.

Vangaveltum um skammtatölvur, strengjafræði, fjölheimakenningar og spurningarnar sem vakna þegar staðið er andspænis vitund sem ekki er mannleg, öllu þessu er miðlað af öryggi og fumlaust. Því ætti ekki að taka sem sjálfsögðum hlut í höndunum á neinum rithöfundi en sérstaklega er forvitnilegt að fylgjast með Steinari Braga takast á við tæknileg atriði vísindaskáldsögunnar og farast það jafnvel úr hendi og raun ber vitni, því aðall hans og einkenni hafa legið annars staðar hefur manni kannski fundist, í því að framkalla draumkenndan ókennileika og draga upp myndir og jafnvel rissa upp hugmyndir hvurs kraftur hefur einmitt að hluta til legið í hinu ósagða, eða hinu ekki fullsagða. Hrollvekjandi undiraldan og framandi myndheimurinn er reyndar svo sannarlega til staðar í nýju bókinni, og í krafti vandlega útfærðrar söguheimssköpunar er útkoman áhrifameiri en nokkru sinni fyrr. Hér er þannig ekki treyst á mátt óræðninnar, dulspeki hins ófullsagða, það er sami kynngimagnaði kraftur sem klárar fléttuna og setur hana af stað. Alþekkt vandamál getgátuskáldskapar er að stóru hugmyndirnar í byrjun afhjúpast sem risablöðrur sem loftið fer úr hægt og rólega, er yfirstigið með glæsibrag.

Efnahagshrunið 2008 var ekki séríslenskt fyrirbæri og ofbeldi gegn konum er það auðvitað ekki heldur en sjónarhornið á þessa hluti í fyrri verkum Steinars var lókal, staðbundið, annað gat það ekki verið, en hérna er sögusviðið lókal en sjónarhornið rís yfir og handan Íslands og viðfangsefnið gerir það líka. Þetta er stór skáldsaga, og stórfengleg, finnst mér. Höfundur í algjörum sérflokki sendir hérna frá sér sína bestu bók, og það er að segja eitthvað.