Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnmálamenn leikarar í leikhúsi ímyndarstjórnmálanna

21.11.2020 - 14:50
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins sagði í ræðu sinni á aukalandsþingi Miðflokksins í dag að sífelld eftirgjöf eigi sér stað frá kjörnum fulltrúum til kerfisins. Stjórnmálin verði sífellt einstrengingslegri.

„Á meðan kerfið stjórnar láta margir stjórnmálamenn sér nægja að vera leikarar í leikhúsi ímyndarstjórnmálanna. Þar fer ekki fram rökræða um staðreyndir og lausnir. Áherslan verður á ímynd og tilraunir til að laga eigin ímynd að tíðarandanum en vega að ímynd og persónu annarra.“ sagði Sigmundur.

Allt annað látið víkja fyrir Kórónukreppunni

Hann ræddi einnig um aðgerðaleysi stjórnvalda í málaflokkum sem ekki tengjast heimsfaraldrinum. Fjöldi málaflokka hefði setið á hakanum á meðan einblínt hafi verið á aðgerðir í tengslum við faraldurinn.

„Það má ekki gleyma þeim hópum og atvinnugreinum sem voru lentar í verulegum vanda, jafnvel hættu, áður en stjórnmálaumræða tók að hverfast um veirufaraldur. Landbúnaður, undirstöðuatvinnugrein Íslendinga frá upphafi, greinin sem hefur haldið lífi í þjóðinni frá landnámi og reynst grunnstoð byggðar á Íslandi og stór þáttur í menningu landsins hefur verið settur í nauðvörn. Það er sótt að greininni úr mörgum áttum samtímis. Búvörusamningar virðast snúast um samdrátt fremur en sókn, óhagstæður tollasamningur við Evrópusambandið gerir bændum erfitt fyrir og veikir samkeppnisstöðu greinarinnar, heimild til að flytja inn hrátt, ófryst kjöt og ógerilsneyddar matvörur bætist þar við. Ofan á það leggst sístækkandi reglugerðarfargan, sem einnig er að miklu leyti innflutt en útfært þannig að íslenskir bændur þurfa að uppfylla meiri og dýrari skilyrði en matvælaframleiðendur víða annars staðar. Um leið lækkar afurðaverð.“ sagði Sigmundur.

Málefni hælisleitenda í ólestri

Þá ræddi hann einnig um stöðu eldri borgara, Borgarlínu, Landspítala og umhverfisvæna stóriðju auk málefna hælisleitenda. Hann  segir þann málaflokk vera fórnarlamb ímyndarstjórnmála.

„Í þeim málaflokki væri hægt að hjálpa margfalt fleirum en nú er gert, og sérstaklega þeim sem þurfa mest á aðstoð að halda, ef þeir sem stjórna leyfðu sér að líta til staðreynda og byggja lausnirnar á þeim staðreyndum.Raunar virðist þessi mikilvægi málaflokkur nú orðinn stjórnlaus á Íslandi. Hvernig stendur á því að fjöldi hælisleitenda á Íslandi, eyju í Norður Atlantshafi, er allt í einu orðinn sá mesti af öllum Norðurlöndunum miðað við fólksfjölda? Það er vegna þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent út. Þau skilaboð nýta m.a. stórhættuleg glæpagengi til að selja fólki vonir um Ísland sem áfangastað og hafa þannig jafnvel af fólkinu aleiguna á fölskum forsendum. Hin Norðurlöndin keppa nú hvert við annað um að senda frá sér skilaboð sem draga úr líkunum á því að löndin séu notuð í slíkum tilgangi. Ef Ísland ætlar eitt Norðurlandanna að skera sig úr hvað þetta varðar verður ekki við neitt ráðið og það mun draga úr getu okkar til að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálpinni að halda og taka vel á móti þeim sem við bjóðum hingað.“ sagði Sigmundur. 

Upptöku af ræðunni og aukalandsþinginu má sjá hér.