
Stefna ríkislögreglustjóra og ríkinu
Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun. Stefnan byggir á því að lögregluþjónarnir vilja að embættið standi við gerða samninga. Engar forsendur hafi verið til þess að afturkalla þá. Málið var þingfest á miðvikudaginn.
Haraldur Johannessen gerði í fyrra nýtt launasamkomulag við yfir- og aðstoðayfirlögregluþjóna sem færir þeim aukin lífeyrisréttindi. Ákvörðunin var umdeild og óskaði dómsmálaráðherra skýringa á henni á sínum tíma. Lögreglustjórar landsins voru mjög ósáttir við samninganna, því þar með yrðu aðstoðar- og yfirlögregluþjónarnir með hærri laun en sjö af níu lögreglustjórum landsins.
Þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri tók við embætti gaf hún það út að vinda ætti ofan af launasamkomulagi sem gert var við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna í tíð Haraldar Johannessen og færði þeim stóraukin lífeyrisréttindi. Við ákvörðunina studdist Sigríður við lögfræðiálit þar sem segir að Haraldur hafi ekki haft heimild til að gera slíka samninga.