Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Remdisivir-lyfið gefið góða raun á Íslandi

21.11.2020 - 22:18
Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Lyfið remdisivir, sem Alþjóðheilbrigðismálastofnunin hefur nú lagst gegn notkun á, hefur töluvert verið notað á Íslandi. Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir og prófessor í smitsjúkdómum, segir lyfið hafa gefið góða raun hér á landi. Læknar muni leggjast yfir þessar nýju ráðleggingar stofnunarinnar.

Í nýjustu ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, er mælt gegn því að lyfið remdesivir sé gefið þeim sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús vegna COVID-19. Remdisivir er breiðvirkandi lyf sem notað hefur verið gegn veirusýkingum. Í tilkynningunni segir að engu skipti hversu veikir sjúklingarnir séu, ekki séu nein gögn sem bendi til þess að lyfið auki lífslíkur þeirra sem veikist af COVID-19. Lyfið var meðal annars gefið Bandaríkjaforseta þegar hann smitaðist af kórónuveirunni. Lyfið hefur jafnframt verið notað hér á landi.

Fara yfir ráðleggingarnar

Magnús segir að ráðleggingar WHO verða skoðaðar.

„Í augnablikinu hefur þetta ekki breytt neinu enda eru þessar ráðleggingar nýkomnar fram.  En við munum fara vel yfir þær og þá hugsanlega endurskoða þær leiðbeiningar sem hafa gilt hingað til,“ segir hann. 

Magnús segir að sumar rannsóknir, eins og sú sem WHO byggi á, sýni fram á litla gagnsemi remdisivir. „Síðan eru aðrar rannsóknir sem hafa líka verið mjög vel úr garði gerðar og hafa verið með sannfærandi niðurstöður á þann veg að einkenni og veikindatími styttist verulega hjá þeim sem fá lyfið,“ bætir hann við. 

Margir fengið lyfið sem virðist ekki hættulegt

Ekkert bendi til þess að lyfið geti stefnt heilsu sjúklinga í hættu. „Mér er ekki kunnugt um neinar slíkar rannsóknir. Ég held að röksemdir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar lúti meira að kostnaðinum sem fylgir kaupum á þessum lyfjum og þeir telji að hugsanlega sé hægt að nýta það fjármagn á skynsamlegri hátt en ég held að það beinist ekki að aukaverkunum eða að hættu stafi af lyfjunum,“ segir hann. 

Magnús segir að margir COVID-sjúklingar hér hafi fengið lyfið. „Allstór hluti af þeim sem hafa lagst inn í þessari síðustu bylgju hafa verið með lungnabólgu og lækkun á súrefnismettun í blóði sem er einmitt það sem við notum til þess að ákveða hvort meðferð eða ekki. Þannig að það er stór hluti af þeim sem hafa fengið slíka meðferð hjá okkur,“ segir hann.