
Pompeo fundar með samninganefndum í Katar
Pompeo ætlar ekki að láta nægja að funda með þeim heldur hyggst hann einnig ræða við Tamim bin Hamad Al-Thani þjóðhöfðingja Katar og utanríkisráðherra landsins.
Fyrr í vikunni tilkynnti Bandaríkjastjórn að tvö þúsund hermenn yrðu kallaðir heim frá Afganistan fyrir 15. janúar. Sú ákvörðun byggir á samkomulagi við Talibana sem gert var í febrúar síðastliðnum.
Þar hét Bandaríkjastjórn því að draga allt herlið sitt heim gegn því að Talibanar hæfu friðarviðræður við ríkisstjórn Afganistans. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur einatt heitið því að binda endi á „eilíf stríð“, þeirra á meðal stríðið í Afganistan. Það hófst með innrás í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í september 2001 og er því orðið langvinnustu átök í sögu Bandaríkjanna.
Nokkuð virðist miða í samkomulagsátt í Katar ágreiningur hefur helst snúist um hvernig ólíkum trúarviðhorfum verði fyrirkomið og eins hvaða áhrif samkomulag Bandaríkjamanna og Talibana muni hafa á framtíð Afganistan.
Þrátt fyrir friðarviðræðurnar hafa Talibanar ekki látið af árásum í landinu en nánast daglega hafa þeir látið til skarar skríða gegn öryggissveitum ríkisstjórnarinnar.