Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Nú er komið að bönkunum að sýna á spilin“

21.11.2020 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að nú sé komið að bönkunum að sýna á spilin. „Seðlabankinn hefur staðið við sitt, ríkissjóður hefur sett fram aðgerðir og stuðningslán verða framlengd,“ sagði hann í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í morgun. Allir aflögufærir þyrftu að koma að borðinu, bankarnir líka.

„Hvar liggur ábyrgð bankanna?“

Sigurður gagnrýndi bankana fyrir að segja aukinn fjármagnskostnað „vera að sliga þá“: „Við lækkuðum reyndar bankaskattinn hraðar til að lækka kostnað bankanna - En ég spyr á móti: Ætlar einhver að græða og hámarka hagnað sinn í krísu sem þessari? ,“ sagði formaðurinn. 

Hann benti einnig á að sú vaxtahækkun sem bankarnir hefðu ráðist í væri ekki til þess fallin að hvetja til nauðsynlegra fjárfestinga. „Seðlabankinn sendi bönkunum skýr skilaboð í vikunni og lækkaði stýrivexti en fram að því höfðu bankarnir hækkað vextina. Vaxtahækkun bankana er ekki til þess fallin að hvetja til fjárfestinga – fjárfestinga sem þarf til að komast út úr krísunni. Hvar liggur þá ábyrgð bankanna?,“ sagði hann. 

Verðum að skapa hagstæð samkeppnisskilyrði

Sigurður sagði kórónukrísuna hafa opnað augu fólks fyrir þeim verðmætum sem eru fólgin í íslenskum matvælum. Þó væri útbóta þörf: „Í vinnslu afurðanna eru auk þess ónýtt tækifæri til hagræðingar. Af hverju hefur okkur ekki tekist að hagræða í matvælaframleiðslu og sækja fram í vöruþróun? Ástæðurnar eru margar, markaðurinn er smár í dreifbýlu landi, en kannski er það hugsunin hjá okkur sjálfum sem setur skorður.“

Til þess að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum matvælum þyrfti að skapa hagstæð samkeppnisskilyrði og tryggja að rekstrarumhverfið hefði svigrúm til að nýta tækifæri sem markaðurinn kallar eftir. Sigurður minntist í því samhengi á að horfa þyrfti til mjólkuriðnaðarins um samstarf, sérhæfingu og verkaskiptingu.

Aldraðir séu virkir þátttakendur

Formaðurinn minntist svo á mikilvægi þess að aldraðir væru virkir þátttakendur í samfélaginu þegar heilsa og aðstæður leyfa. „. Að þeir geti miðlað sinni dýrmætri þekkingu og haft val um að vera lengur á vinnumarkaðnum,“ sagði hann og benti á að þjóðin væri að eldast hratt og samfélagið þar með að breytast.

Sennilega þyrfti að ráðast í meiri forvarnir og lýðheilsuaðgerðir, aukna heimaþjónustu, fjarheilbrigðisþjónustu og jafnvel fjölga hjúkrunarrýmum. „Við verðum að stuðla að virkni fólks en slíkt hefur jákvæð áhrif á líðan og dregur úr heilsufarsvandamálum. Sveigjanleg starfslok eru hluti af þessari framtíðarsýn,“ sagði hann.