Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nagorno-Karabakh: Jerúsalem fyrir Armena og Asera

21.11.2020 - 08:13
epa08724886 A woman walks in her house allegedly damaged by an alleged recent shelling in the downtown of Ganja in Agdam region in Nagorno Karabakh, 06 October 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/AZIZ KARIMOV
Margir hafa misst heimili sín í bardögum Armena og Asera undanfarna daga. Mynd: EPA-EFE - EPA
Nagorno-Karabakh, lítið hérað í Suður-Kákasusfjöllunum, hefur verið bitbein Armeníu og Aserbaísjan áratugum saman. Nýlega kom til harðra átaka þar, sem endaði með friðarsamkomulagi, sem ekki allir eru ánægðir með. Síðasta friðarsamkomulag entist í 26 ár. Að baki ófriðnum eru flókin pólitísk átök sem fleiri þjóðir hafa dregist í.

Nagorno-Karabakh er 4.400 ferkílómetra hérað - álíka stórt að flatarmáli og Faxaflói. Í þessum áratuga löngum átökum tugir þúsunda hafa látið lífið í átökunum á þessum tíma. Nú síðast var barist um héraðið í sex vikur áður en samið var um frið.

Til að leita skýringa á þessum stöðugu átökum er rétt að stikla á stóru í sögu héraðsins, en fyrir frekari fróðleik er rétt að vísa í nýlega umfjöllun Veru Illugadóttur um sögu héraðsins í þættinum Í ljósi sögunnar.

Í áranna rás hafa bæði kristnir Armenar og íslamskir Aserar af tyrkneskum uppruna búið í héraðinu. Það var lengst af undir armenskri stjórn svo vitað sé en varð eftir aldamótin 1800 hluti af rússneska keisaradæminu. Hóparnir tveir virðast að mestu hafa lifað í sátt og samlyndi þangað til í byrjun 20. aldar.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Jósef Stalín, maðurinn sam ákvað að Nagorno-Karabakh myndi tilheyra Aserbaísjan.

Þegar Bolshevíkar yfirtóku Armeníu og Aserbaísjan upp úr 1920, og þau urðu hluti af Sovétríkjunum, ákváðu þeir að héraðið yrði í lögsögu Aserbaísjan, en þó með töluverða sjálfstjórn. Það var í raun Jósef Stalín sem tók þessa ákvörðun.

Á Sovéttímanum fóru Aserar að setjast að í Nagorno-Karabakh í auknum mæli, og Armenum sem þar voru fyrir fannst að sér þrengt og þeir jafnvel beittir misrétti. Í þessari togstreitu er hluta skýringarinnar að leita. En við spyrjum þó frekar, hvers vegna þetta svæði hefur verið svo mikið átakasvæði.

Ani Mejlumyan, rannsóknarblaðamaður frá Armeníu.
 Mynd: LinkedIn - Vefur
Ani Mejlumyan, blaðamaður hjá Eurasianet.

„Þetta er milljón dollara spurningin, sem allir spyrja mig að,“ segir Ani Mejlumyan, rannsóknarblaðamaður hjá vefmiðlinum Eurasianet, sem fjallar mest um málefni Suður-Kákasus og Mið-Asíu. Hún er frá Armeníu, býr í Jerevan og hefur fylgst vel með deilunni. „Enda er svarið ekki augljóst því það er ekki mikið um náttúruauðlindir í héraðinu. Það er þá helst að olíuleiðslur til Aserbaísjans liggja um héraðið. Átökin eru fyrst og fremst pólitísk. Til að setja þetta í eitthvert samhengi þá er þetta Jerúsalem Armena og Asera,“ Sem kunnugt er gera bæði Íraelsmenn og Palestínumenn tilkall til þeirrar borgar og hefur það leitt af sér töluverð átök þeirra á milli.

En svarið við spurningunni um hvers vegna átök eru svo tíð þarna er ekki aðeins tilfinningamál. Jón Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands, sem hefur fylgst vel með þessum heimshluta, var á ferð þarna fyrir hartnær 30 árum sem fréttaritari RÚV, og spurði þá þessarar sömu spurningar. „Ég fékk þá svarið: Þú verður að átta þig á því að Nagorno-Karabakh er himneskur staður. Ég veit nú ekki hversu góð skýring þetta er.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Jón bendir á að íbúar Nagorno-Karabakh hafi verið þeir fyrstu til að nýta sér breytingarnar sem urðu á tíma Mikhail Gorbatchov sem leiðtoga Sovétríkjanna á seinni hluta 9. áratugarins til að öðlast meira sjálfstæði. „Þetta er hérað sem hafði þá verið áratugum saman innan Aserbaísjan og það hafði verið ófriður og óþægindi milli Armena og Asera. Það sem gerist er að í Nagorno-Karabakh verður þessi þróun eiginlega fyrst, og þess vegna tóku svo margir eftir því á sínum tíma.“

Fáheyrð krafa um breytta stjórn 1988

Hér vísar Jón til þess að í febrúar 1988 kröfðust Armenar í Nagorno-Karabakh þess að héraðið yrði fært undir Armeníu. Slík krafa til yfirvalda í Kreml á þessum tíma var fáheyrð, enda höfnuðu þau kröfunni. Jón bendir á að í kjölfarið hafi svipað gerst á fleiri stöðum í gömlu Sovétríkjunum, til dæmis í Téténíu og í Georgíu með Abkasíu og Suður-Ossetíu.

Þegar Aserar fengu sjálfstæði 1991 lýstu þeir því yfir að Nagorno-Karabakh tilheyrði þeim. Armenarnir sem bjuggu þar sættu sig ekki við það og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember sama ár að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins. Aserar sniðgengu þá atkvæðagreiðslu og sjálfstæðið hefur aldrei verið viðurkennt alþjóðlega. Við það braust út stríð milli Armena í Nagorno-Karabakh og Asera, sem hefur verið kallað frelsisstríð Artsakh - en það er nafnið sem sjálfstæðissinnaðir Armenar hafa gefið hinu sjálfstæða ríki Nagorno-Karabakh. Armenar studdu sjálfstæðissinna.

Óvæntur sigur Armeníu

Jón Ólafsson var í Nagorno-Karabakh vorið 1991, þegar þessir sjálfstæðistilburðir héraðsins voru að hefjast. „Á þeim tíma sá maður þetta þannig að Armenar gætu tæplega haft þann styrk að ná öllu þessu svæði á sitt vald eins og markmiðið var. Svo gerðist það, og það var vegna þess að þeir höfðu styrk utanfrá sem Aserar höfðu ekki.“

Armenar lögðu ekki aðeins undir sig héraðið, heldur um 14% af landsvæði Aserbaísjans utan héraðsins, svæði milli héraðsins og landamæranna að Armeníu.

Samið var um vopnahlé í maí 1994. Armenar héldu þeim svæðum sem þeir höfðu hertekið, ekki bara í Nagorno-Karabakh heldur líka í Aserbaísjan. Armenía var þannig beintengd við Nagorno-Karabakh.

Jón segir að þarna hafi átökin í raun verið fryst, líkt og gerst hafi með fleiri slík í gömlu Sovétríkjunum. „Það er fundin ákveðin lausn sem heldur hlutunum í limbói í mjög langan tíma - í tilfelli Nagorno-Karabah síðan árið 1994. Þannig að breytingin sem er að verða núna er breyting á skipulagi sem hefur ríkt í 26 ár. Þannig að það er vissulega hægt að segja að þar hafi verið ófriður, en á sinn hátt hefur líka verið friður þar síðan þessi niðurstaða fékkst árið 1994.“

Friðurinn ekki varanlegur

Yfir milljón Aserar sem bjuggu í Nagorno-Karabakh og annars staðar í heimalandi sínu lentu á vergangi í og eftir stríðið, sem og fjöldi Asera sem bjó í Armeníu og Armena sem bjó í Aserbaísjan. Flestir þeirra hafa ekki séð sér fært að snúa aftur. Þetta er ekki beinlínis grundvöllur fyrir varanlegum friði, enda segir Jón að það hafi heldur ekki verið í kortunum. „Friðurinn 1994 var ekki endanlegur og yfirvöld í Aserbaísjan gáfu aldrei einu sinni í skyn að það væri ætlunin að láta þetta verða svona til frambúðar.“

Jón segir að eftir þetta hafi Nagorno-Karabakh í raun verið undir stjórn Armena, þó alþjóðasamfélagið telji það tilheyra Aserbaísjan. „Á sama tíma hefur verið fullur fjandskapur milli Armeníu og Aserbaísjan, til dæmis engin umferð yfir landamæri eða neitt slíkt. Þannig að þetta hefur haldist í limbói. Það furðulega í þessu er að Armenía er miklu veikara ríki en Aserbaísjan. Aserbaísjan stendur nokkuð vel, það er olíuauður þar og miklu meiri möguleikar á samskiptum við bandamenn, til dæmis í Tyrklandi. Armenía er dálítið einangrað, landlukt ríki, en hefur treyst á að halda góðum samskiptum við Rússa, og það hefur valdið því í öll þessi ár að þetta hefur haldist nánast óbreytt.“

epa08704181 A still image taken from a handout video footage published 28 September 2020 on the official website or the Azerbaijan's Defence Ministry shows Azerbaijani army serviceman during a military operation at the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh). Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic.  EPA-EFE/AZERBAIJAN DEFENCE MINISTRY / HANDOUT MANDATORY CREDIT / BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Aserskir hermenn. Mynd: EPA-EFE - AZERBAIJAN DEFENCE MINISTRY
Frá upphafi átakanna í september.

Átökin nú hófust 27. september. Það kom mörgum á óvart, en ekki þeim sem fylgdust með stöðunni. Ani Mejlumyan bendir á að samskipti Tyrkja og Asera hafi farið vaxandi, bæði með pólitískum stuðningi Tyrkja í skammvinnum bardögum um Nagorno-Karabakh í sumar, en einnig með vopnaviðskiptum og sameiginlegum heræfingum.

„Ef einhver vissi ekki að þessi átök voru í aðsigi er það eingöngu vegna fáfræði. Við vissum að þetta myndi gerast - hvort það yrði í september, nóvember eða á næsta ári var ekki ljóst en það var augljóst að Aserbaísjan ætlaði að leysa þessa deilu með hernaði,“ segir Ani.

Alþjóðlegir málamiðlarar voru hins vegar mest með hugann við heimsfaraldurinn og uppreisn almennings eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi. Því yfirsást mönnum hvað þarna var í aðsigi.

Armenar sögðu að Aserar hefðu hleypt af fyrsta skotinu en Aserar sögðust vera að bregðast við aukinni framsókn Armena í héraðinu. Hvað sem rétt var í þeim efnum var ljóst að Aserar ætluðu, með stuðningi Tyrkja, að láta til skarar skríða. 

Stuðningur Tyrkja skipti sköpum

„Stóra breytingin er innkoma Tyrkja í þetta. Tyrkir hafa hingað til ekki viljað blanda sér með beinum hætti í þessi átök en gera það nú og það er klárt mál að ástæðan fyrir því að Aserbaísjan fer af stað með sín hernaðarumsvif í september er sú að þeir vita af stuðningi Tyrkja,“ segir Jón Ólafsson.

Ani Mejlumyan er sammála því að stuðningur Tyrkja hafi skipti sköpum fyrir Asera. „Áður en Aserar fengu stuðning Tyrkja hefðu þeir aldrei farið í þetta stríð. Þá vantaði svo margt, meðal annars hernaðarlegan stuðning. Stuðningur Tyrkja var klárlega ástæðan fyrir því að Aserbaísjan var tilbúið til að fara í mjög kostnaðarsamt stríð.“

Rússar studdu Armena formlega í þessum átökum, en sérfræðingar telja þá hins vegar hafa verið í erfiðri stöðu til að beita sér. Armenar eru í varnarbandalagi með Rússum sem skyldar þá til að bregast við ef ráðist er á þá. En þar sem Nagorno-Karabakh telst ekki hluti af Armeníu, er héraðið ekki hluti af þessum varnarsamningi. Rússar hafa á sama tíma líka haldið góðu sambandi við Aserbaísjan, og raunar selt herjum beggja þjóða vopn. Rússar héldu því frekar að sér höndum í þessum átökum.

Á þessum sex vikum sem átökin stóðu var samið þrisvar um vopnahlé, en þau fóru í öllum tilvikum út um þúfur, og þeir kenndu hvorir öðrum um. En yfirvöld í Aserbaísjan töluðu af miklu sjálfstrausti. Forseti landsins, Ilham Aliyev, sagði meðal annars ítrekað að það væri aðeins ein lausn á deilunni - að Armenar drægju allt herlið sitt úr héraðinu. Aserar ættu fullan rétt á að taka til sín landsvæði sem væri þeirra eign samkvæmt alþjóðlögum. Við munum halda áfram til enda, sagði Aliyev.

Friðarsamkomulag næst

Um mánaðamótin október-nóvember náðu Aserar borginni Shusha á sitt vald, sem er bæði pólitískt og hernaðarlega mikilvæg. Með því lokuðu Aserar leiðinni frá Armeníu til Nagorno-Karabakh sem var notuð til að flytja hergögn. Armensk stjórnvöld mátu þá stöðuna þannig að hætta væri á að Aserar legðu allt héraðið undir sig.

Friðarumleitanir hófust, sem lauk með því að friðarsamkomulag var undirritað 10. nóvember af Vladimír Pútín forseta Rússlands, Ilham Aliyev forseta Aserbaísjan og Nikol Pashinyan forsætisráðherra Armeníu. Samkomulagið var mikill sigur fyrir Aserbaísjan. Þeir halda svæðinu sem þeir náðu í suðurhluta Nagorno-Karabakh sem hafði verið á valdi Armena, þar á meðal borginni Shusha. Þeir fá líka aftur svæðið milli héraðsins og landamæranna að Armeníu, sem Armenar höfðu lagt undir sig fyrir aldarfjórðungi. Armenar hafa eftir samkomulagið aðeins þriðjung af því landsvæði sem þeir höfðu áður en átökin hófust í september. Þá var Armenum gert skylt að kalla allt herlið sitt til baka frá héraðinu, en rússneskir friðargæsluliðar komu í staðinn. Karabakh er okkar, sagði Aliev forseti Aserbaísjans sigurreifur þegar samkomulagið var í höfn.

epa08810712 Russian President Vladimir Putin makes a statement on a joint declaration with Azerbaijani President Aliyev and Armenian Prime Minister Pashinyan (not pictured) on a new ceasefire in Nagorno-Karabakh, at Novo-Ogaryovo state residence, outside Moscow, Russia, 10 November 2020.
Vladímír Pútín kynnir friðarsamkomulag um Nagorno-Karabakh 10. nóvember. Mynd: SPUTNIK / KREMLIN POOL - EPA

Jón Ólafsson bendir á að Rússar og Tyrkir fái líka eitthvað út úr samkomulaginu. „Breytingin sem hér er stuðlað að er sú að átök sem hafa verið mjög staðbundin eru orðin svæðisbundin. Þau eiga víðari skírskotun. Rússar viðurkenna aðkomu Tyrkja og Tyrkir viðurkenna á vissan hátt yfirráð Rússa á svæðinu. Þá leyfa Aserar Rússum að vera inni á sínu landi með herafla. Það má segja að allir telji sig græða á þessu, nema auðvitað Armenar. Þeir eru veiki aðilinn í þessu samkomulagi, enda er allt að verða vitlaust í Armeníu.“

Það eru orð að sönnu. Fjöldi Armena hefur mótmælt á götum úti og meira að segja forseti landsins hefur hvatt forsætisráðherrann til að segja af sér.

epaselect epa08810589 Protestors against the end of war in the Nagorno-Karabakh are seen inside the building of the National Assembly of the Republic of Armenia (Armenian Parliament) after storming the building, in Yerevan, Armenia, 10 November 2020. On 09 November Azerbaijan President Aliyev, Armenia? Prime Minister Pashinyan and Russian President Putin signed a statement announcing a complete ceasefire and all military operations in the Nagorno-Karabakh conflict zone from 00:00 a.m. Moscow time on 10 November 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/VAHRAM BAGHDASARYAN MANDATORY CREDIT
Mótmælendur í þinghúsinu í Jerevan. Mynd: EPA-EFE - PHOTOLURE
Mótmæli gegn friðarsamkomulaginu í armenska þinghúsinu.

En Jón bendir á nýjung í samningnum, sem er frjáls för fólks. Og það á ekki aðeins við um Nagorno-Karabakh, heldur geti það átt við fleiri svæði. Hann nefnir sem dæmi svæði á landamærum Armeníu og Írans, Nakhchivan, sem Aserar ráða yfir en hefur verið einangrað frá Aserbaísjan, þannig að ekki hefur verið hægt að komast beint þaðan til Nakhchivan.

„Samkvæmt þessum samningi er gert ráð fyrir að það verði búin til göng af asersku svæði yfir til Nakhchivan. Það er ekki búið að útfæra nákvæmlega hvernig það verður en eitt af markmiðum samningsins er að það verði frjáls för um allt þetta svæði. Hvort það þýðir að það verði opin landamæri milli Aserbaísjans og Armeníu, þannig að hægt verði að fara beint þar á milli, verður framtíðin að leiða í ljós. En það eru hagsmunir Rússland og Tyrklands að koma á eðlilegum samskiptum á þessu svæði. Armenía og Tyrkland hafa til dæmis aldrei haft opin landamæri, sem stafar af sögulegum deilum en lýsir líka fjandskapnum sem er þarna á milli. Þá spila Íranar líka sérstakt hlutverk. Stór hluti af Aserbaísjan er í raun innan íranskra landamæra. Þannig að sumir sem hafa verið að skoða hvað friðarsamkomulagið geti haft í för með sér halda jafnvel að ef að friðarsveit Rússa nær að halda utan um ástandið á svæðinu gæti þetta leitt til þess að samskipti verði á milli landsvæða sem hafa ekki verið með neitt samneyti sín á milli í áratugi.“

Bitbein í pólitískum deilum

Ani Mejlumyan segir að bæði Aserar og Amenar hafi notað Nagorno-Karabah sem bitbein og jafnvel réttlætingu í pólitískum deilum.  „Þetta bitbein er jafnframt notað til að tryggja pólitísk völd. Til dæmis er pólitísk spilling réttlætt með því að það sé stríð í gangi og því sé ekki hægt að hafa áhyggjur af þessu. Nagorno-Karabah hefur því verið notað til að réttlæta gerðir pólitískra valdhafa,“ segir Ani.

Valdhafar hafi líka notað svæðið til að auka tilfinningar fólksins gagnvart svæðinu. Þetta endurspeglast í pólitísku ástandi í löndunum núna. Aliev forseti Aserbaísjan er í góðri stöðu fyrir endurkjör, meðan Armenía er í pólitískri kreppu vegna mikilla óvinsæla forsætisráðherrans.

epa08829021 A handout still image taken from a video footage made available by the press service of the Russian Defence Ministry shows a Russian peacekeepers checking a car at a checkpoint in the Lachin Corridor, 19 November 2020. Russia has been sending peacekeepers and equipment to Armenia to control the ceasefire and the halt of military operations in the Nagorno-Karabakh conflict zone.  EPA-EFE/RUSSIAN DEFENCE MINISTRY/HANDOUT MANDATORY CREDIT/BEST QUALITY AVAILABLE/HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - RUSSIAN DEFENCE MINISTRY/HO
Rússneskir friðargæsluliðar að störfum í Nagorno-Karabakh.

Áhrif á fleiri landsvæði

En er einhver von um að varanlegur friður náist? Jón segir stöðuna nú í raun afturhvarf til stöðunnar 1991, þegar hann var þar á ferð. Samkomulagið nú sé til fimm ára, og framhaldið fari eftir því hvort reynt verði að festa þetta fyrirkomulag í þessi, eða hvort Armenar reyni að ná svæðunum á sitt vald aftur.

„Ég held að það sé bara hægt að sjá hvað gerist. Það er erfitt að spá um hvernig þetta festist í sessi. En þetta er athyglisvert samkomulag að því leyti að þarna er verið að stíga skref sem hlýtur að hafa áhrif á önnur svæði sem eru í svipuðu millibilsástandi. Það hefur klárlega áhrif á Georgíu fyrir Abkhasíu og Suður-Ossetíu, líka fyrir Transnistríu sem er á landamærum Úkraínu og Móldóvu. Maður getur spurt hvort þetta hafi áhrif á Krímskaga. Við erum að sjá skref í áttina að því að hefja þessi litlu svæðisbundnu átök upp á annað stig þar sem Rússar eru að samþykkja meira aðkomu annarra þjóða að samningum og öðru slíku.“

Erum að missa heilu kynslóðirnar

Ani Mejlumyan segir að það sé ekki mögulegt að ná samkomulagi sem allir eru sáttir við. Ástandið á svæðinu sé afar eldfimt. „Besta lausnin fyrir svæði er að lausn finnist hratt á deilunni. En verður af því? Bæði löndin þurfa nú sterk stjórnvöld, sérstaklega Armenía. Það þarf að leiða þjóðina úr þessari stöðu þannig að friðsamleg lausn finnist. Að auki hefur þessi stríðrekstur mikil efnahagsleg áhrif á löndin.“

Og Ani lætur tilfinningarnar aðeins ráða för þegar hún talar um framtíðarhorfurnar. „Auðvitað er alltaf möguleiki á öðru stríði, en það er ekki skynsamlegt núna.. Við erum að missa heilu kynslóðirnar. Það eru hundruð þúsunda eða milljónir manna á vergangi. Þetta getur ekki haldið svona áfram, og að mínu mati á það ekki að viðgangast.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV