Mynd: Unsplash

Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.
Leikara leitað fyrir færeysku þáttaröðina TROM
21.11.2020 - 23:54
Framleiðendur færeysku glæpaþáttaraðarinnar TROM hyggjast taka til við að velja leikara í öll helstu hlutverk, stór og smá, snemma árs 2021. Vonast er til að tökur hefjist næsta vor eða sumar og verði lokið í júní 2021.
Leitað er að fólki á öllum aldri til að leika í TROM og samkvæmt auglýsingu frá framleiðendunum er ekki gerð krafa um að hafa leikaramenntun. Það eru færeyska kvikmyndafyrirtækið Kykmyndir og hið danska REinvent Studios sem framleiða þáttaröðina.
TROM byggir á skáldsögu Jógvans Isaksen og fjallar um blaðamanninn Hannis Martinsson og morð á dýraverndunarsinna meðan á grindhvaladrápi stendur í Færeyjum. Skyndlega liggja allir undir grun að vera morðingjar.
Um hríð leit illa út með að unnt yrði að taka þáttaröðina upp í Færeyjum vegna skorts á fjármagni en talsmenn Kykmynda standa keikir og segja ekkert að vanbúnaði.