Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Landamæratilslakanir mega ekki koma seinna en í febrúar

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að það hefði mátt útvíkka hlutabótaleiðina. Breytingar á sóttvarnaaðgerðum á landamærunum megi ekki vera mikið seinni en í febrúar til að tryggja verðmætasköpun í sumar. Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að hver vika skipti máli.

Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðir upp á allt að 70 milljarða. Viðspyrnustyrki til fyrirtækja sem eiga að halda þeim á floti þar til faraldurinn er genginn yfir. Auk aðgerða til heimila, hækkun atvinnuleysisbóta og lífeyrisgreiðslur. 

„Það sem er mikilvægt er að þessar aðgerðir séu loksins komnar fram, það er búið að bíða töluvert lengi eftir þeim. Við erum komin með heildarsýn yfir þær aðgerðir sem stjórnvöld ætla að grípa til miðað við að bóluefni sé í augnsýn. Fyrirtæki gera þá gert áætlanir fram í tímann og vonandi að huga að endurreisninni,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hefðu viljað sjá útvíkkun hlutabótaleiðar

Bjarnheiður segir lykilatriði að hlutabótaleiðin hafi verið framlengd fram á vor. Starfsmaður þarf að lágmarki að vera í 50% starfshlutfalli til að unnt sé að greiða hlutabætur en þegar verst lét í fyrstu bylgju faraldursins í vor var hægt að fá allt að 75% hlutabætur. „Við vildum náttlega gjarnan vilja sjá hana [hlutabótaleiðina] fara í 75-25, með þeim möguleika hefði verið hægt að ráða starfsfólk hraðar inn í fyrirtækin,“ segir hún.

Ríkisstjórnin stefnir á að kynna sóttvarnaraðgerðir á landamærunum 15. janúar, samþykkt var í gær að núverandi fyrirkomulag verði óbreytt til 1. febrúar. „Þar að segja ef það verða virkilega breytingar á landamærunum 1. febrúar sem gera ferðalög erlendra ferðamanna möguleg. En það má ekki vera mikið seinna en það ef við ætlum að ná inn einhverri verðmætasköpun í sumar, það er alveg ljóst.“

Hver vika skiptir máli

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að mörg fyrirtæki geti nýtt sér úrræði stjórnvalda sem kynnt voru í gær. „Það sem stjórnvöld eru að boða með þessum aðgerðum er meiri vissa með þessum aðgerðum. En við teljum að það þurfi að skýra línurnar varðandi aðgerðir sóttvanarna,“ segir hún.

„Tíminn núna er sá tími sem íslensk ferðaþjónusta er að selja inn á næsta sumar. Þess vegna skiptir miklu máli að tilkynning komi um hvers konar fyrirkomulag verði á landamærunum þarf að koma sem fyrst. Hver vika skiptir máli, þetta skiptir ekki bara máli fyrir íslenska ferðaþjónustu heldur líka þá viðspyrnu sem er fram undan.“

Mikilvægt að stjórnvöld skýri línurnar innanlands fyrir jólin

Hún segir að samtökin sýni því skilning að þetta taki tíma en hann sé knappur. Fyrirsjáanleiki í sóttvarnaraðgerðum innanlands skipti líka máli, sér í lagi fyrir jólahátíðina. „Það er erfitt fyrir fyrirtæki að gera ráðstafanir ekki vita hvernig samkomutakmörkunum verður háttað. Það er mikilvægt að stjórnvöld skýri línurnar hvað þetta varðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.