Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kjörið að breyta skrifstofum í íbúðir

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Guðjón Auðunsson forstjóri Reita segir að óbreyttu verða offramboð á skrifstofuhúsnæði í miðborg Reykjavíkur. Því gæti hluti lausnarinnar verið að breyta þeim í íbúðir.

Morgunblaðið hefur eftir Guðjóni að slíkar íbúðir gætu orðið eftirsóttar enda vel staðsettar og lofthæð í þeim gæti til að mynda verið meiri en gengur og gerist.  

Ekki sé þörf á öllu því skrifstofuhúsnæði sem til er á markaðnum. Guðjón telur þó kórónuveirufaraldurinn ekki hafa varanleg áhrif á spurn eftir atvinnuhúsnæði. Þegar hann verður genginn yfir muni fólk aftur vilja geta skilið milli heimilis og vinnu.

Tilefni orða Guðjóns er viðtal sem Morgunblaðið birti við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í gær, þar sem hann gaf í skyn að heimilt yrði að breyta skrifstofum í íbúðir.

Hækkandi verð hafi orðið til þess að verslanir og annar rekstur hafi færst til í borginni. Stórar nýbyggingar Alþingis og Landsbankans muni sömuleiðis losa um mikið skrifstofurými í Kvosinni.