Kaflaskil í áratuga baráttu fyrir lækningu á lömun

Mynd: Ólafur Már Svavarsson  / Ólafur Már Svavarsson

Kaflaskil í áratuga baráttu fyrir lækningu á lömun

21.11.2020 - 20:19

Höfundar

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur samþykkt áætlun um að finna lækningu við lömun. Utanríkisráðherra segir Íslendinga geta eignað sér það að hluta, en þó einkum ein kona.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, samþykkti á alþjóðaheilbrigðisþinginu á dögunum að taka rannsóknir á mænuskaða inn í 10 ára áætlun um rannsóknir og lækningu á taugakerfinu. Guðlaugur Þór Þórðarson urtanríkisráðherra segir þetta mjög mikilvægt skref, baráttan fyrir því hafi staðið lengi og Íslendingar geti eignað sér hluta af þessum árangri.

„Sjálfur hef ég tekið þátt í þessu lengi, bæði sem þingmaður og heilbrigðis- og utanríkisráðherra, sdömuleðis núverandi heilbrigðisráðherra. En ég held að það sé nú óhætt að segja að sá einstaklingur sem á mestar þakkir skilið er Auður Guðjónsdóttir sem hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á þessu og hvetja okkur til góðra verka og ég fullyrði það að þessi hluti væri ekki kominn á þennan stað nema fyrir ötulu baráttu,“ segir Guðlaugur Þór.

Auður, sem er hjúkrunarfræðingur, hóf baráttuna fyrir lækningu á mænuskaða eftir að Hrafnhildur dóttir hennar slasaðist alvarlega í bílslysi árið 1989 og hefur leitað ýmissa leiða bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, rætt við þjóðarleiðtoga og aðra og stofnaði meðal annars Mænuskaðastofnun Íslands sem hýsir alþjóðlegan gagnabanka um nýjungar í meðferð við mænuskaða. 

„WHO er komið með þetta á dagskrá og er að leggja upp framkvæmdaáætlun hvað þetta varðar og það er engin stofnun betri til þess að fylgja þessum málum eftir. Einhver kynni að segja; er það ekki sjálfsagt að eitthvað svona gerist? Það er það ekki. Það eru auðvitað mörg mál sem menn vilja sjá tekin fyrir og jafn skrýtið og það nú er þá tekur oft ár, í þessu tilviki áratugi, að koma þessum málum á þann stað sem það er núna,“ segir utanríkisráðherra.

Auður Guðjónsdóttir fagnar þessum áfanga.

„Þetta þýðir það að Alþjóðaheilbrigðisstofunin samþykkt það að það þurfi að gera sérstakt átak í því að finna lækningu við lömun og öðrum meinum í mænu og heila.“

Hún segir að eftir áratuga baráttu séu komin kaflaskil í baráttunni.

„Já, þetta eru mikil kaflaskil því að loksins er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin búin að samþykkja. Það  er búið að fara víða með þetta mál, meðal annars til Norðurlandaráðs, til Sameinuðu þjóðanna og nú er komið svo að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin búin að samþykkja.“

Að sögn hennar er nálgunin önnur núna en verið hefur hingað til.

„Það hefur allt gengið út á forvarnir og umönnun. Nú er lækning komin líka inn sem þýðir að Alþjóða heilbrigðisstofnunin ætlar að fara að styðja við bakið á læknavísindunum til að það gangi betur að finna lækningu.“