Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Gríðarlegur stökkpallur fyrir okkur alla“

Mynd: Facebook síða KSÍ / KSÍ

„Gríðarlegur stökkpallur fyrir okkur alla“

21.11.2020 - 17:22
Alex Þór Hauksson leikmaður 21 árs landsliðs Íslands í fótbolta segir það gríðarlegan stökkpall fyrir leikmenn liðsins að hafa unnið sér inn þátttökurétt í lokakeppni EM. Ísland spilar í riðlakeppni EM í lok mars. 

 

Evrópska knattspyrnusambandið úrskurðaði í gær Íslandi sigur á móti Armeníu í leik sem var aflýst vegna kórónuveirusmita hjá Armenum. Þar með var sæti Íslands á EM tryggt.

Þó svo að Ísland hafi fengið gefins sigur á móti Armenum telur Alex íslenska liðið verðskulda sæti í lokakeppni EM.

Við erum saman í svona hópspjalli og þegar við fengum fréttirnar þá voru bara mikil fagnaðarlæti,“ sagði Alex Þór í samtali við RÚV í dag.

„Þetta var hörkuriðill og einn af þeim fáu þar sem voru fjögur lið og Írland og Svíþjóð sitja eftir.“

En hvaða þýðingu hefur það að komast inn á mótið?

„Þetta er auðvitað gríðarlegur stökkpallur fyrir okkur alla til að sýna og sanna hvað við getum. Við erum í hópi með stórum fótboltaþjóðum og það að sýna að við séum á pari með þessum strákum er rosa flott fyrir okkur alla.“

Íslenskt 21 árs landslið hefur aðeins einu sinni áður komist í lokakeppni EM. Það var árið 2011 en í því liði voru menn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbein Sigþórsson, Birki Bjarnason og Alfreð Finnbogason.

„Fyrir mig er það mikill heiður en það er kannski full snemmt að bera okkur saman við þessa stráka sem hafa fært þjóðinni svo mikið en það sýnir okkur klárlega að við séum á réttri leið og vonandi það sem koma skal,“ sagði Alex. 

Nánar er rætt við Alex Þór í spilaranum hér fyrir ofan.