
Fjárhagsstaða stjórnmálaflokka snarbatnar milli ára
Allir flokkar skila meiri hagnaði en árið áður
Samfylkingin hagnaðist um sjötíu og eina milljón á árinu 2019, og rúmlega fjórfaldaði hagnaðinn frá árinu áður. Sjálfstæðisflokkurinn hagnaðist um 67 milljónir og hafði skilað 35 milljóna króna tapi árið 2018.
Miðflokkurinn hagnaðist um 67 milljónir og jók hagnaðinn um tíu milljónir frá árinu áður. Hagnaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var 38 milljónir og breyttist nær ekkert milli ára. Framsóknarflokkurinn skilaði hagnaði upp á 37 milljónir en hafði skilað tveggja milljóna króna tapi árið áður.
Viðreisn skilaði minnstum hagnaði, 24 milljónum, en flokkurinn tífaldaði samt rúmlega hagnað ársins 2018. Ríkisendurskoðun hefur ekki birt ársreikninga Pírata og Flokks fólksins.
Langstærstur hluti tekna úr opinberum sjóðum
Tekjugrunnur flokkanna byggist að langmestu leyti á framlögum úr opinberum sjóðum, til dæmis koma tveir þriðju af tekjum Sjálfstæðisflokksins frá ríki og sveitarfélögum, 91 prósent af tekjum Vinstri grænna og 78 prósent af tekjum Samfylkingarinnar. Samtals fengu flokkarnir sem eiga sæti á Alþingi um 744 milljónir árið 2019 en framlögin hækkuðu um rúmlega helming strax eftir síðustu kosningar eftir að allir flokkar nema Píratar og Flokkur fólksins lögðu fram tillögu þess efnis.
Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem á langmestar eignir, 847 milljónir og skuldir upp á 452 milljónir og Viðreisn er eignaminnsti flokkurinn með 22 milljónir á móti fjögurra milljona króna skuldum.