Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Færri börn týnast í faraldrinum en þau týnast oftar

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Leitarbeiðnum til lögreglu um týnd börn hefur fjölgað í faraldrinum, en þær ná til færri einstaklinga. Þetta segir Guðmundur Fylkisson lögreglumaður sem hefur um árabil séð um að hafa uppi á týndum börnum.

Hann segir að vandi barnanna hafi breyst. Ekki sé eins mikið um harða fíkniefnaneyslu og neyslu lyfseðilsskyldra lyfja eins og áður fyrr. Það sem af er ári hafa um 190 beiðnir borist til lögreglu um leit að týndum börnum. Það er heldur meira en á sama tíma í fyrra.

„Þeim er að fækka þeim sem eru í þungri fíkniefnaneyslu. Þau eru að eldast út og það eru sem betur fer ekki að koma inn nýir þar. Það er annars konar vandi sem blasir við. Þegar það koma inn mjög ungir einstaklingar þá tekur svolítinn tíma fyrir kerfið að grípa þá fastari tökum heldur en þeir eru vanir. Það útskýrir kannski þennan mun á fjölda leitarbeiðnanna og einstaklinganna. Það eru yngri krakkar sem ég að leita að aftur og aftur“ segir Guðmundur.

Hann segir að fjármagni sem varið er í verkefnið skili sér margfalt til baka og á ekki von á því að fjárveitingar verði skertar, nú þegar rík krafa er gerð um hagræðingu í rekstri. 

„Ég hef ekki trú á því að það gerist. Ég veit að hver króna sem sett er í þennan málaflokk, hún skilar sér áttfalt eða nífalt til baka.“ segir Guðmundur.

Kristín Sigurðardóttir fréttamaður ræddi við Guðmund í gær vegna viðurkenningar Barnaheilla sem Guðmundur fékk fyrir starf sitt í þágu barna. Viðtalið má sjá hér að ofan í heild sinni.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV