Fær fleiri lesendur í gegnum vefinn en bækur

Mynd: RÚV / Kiljan

Fær fleiri lesendur í gegnum vefinn en bækur

21.11.2020 - 13:00

Höfundar

Anton Helgi Jónsson var að gefa út ljóðabókina Handbók um ómerktar undankomuleiðir sem er hans níunda bók. Hann hefur líka vakið athygli fyrir umfangsmikinn vef sem hann setti á laggirnar fyrir tveimur árum, en þar má lesa allar hans eldri ljóðabækur og meira til.

Gagnrýnendur Kiljunnar fóru lofsamlegum orðum um Handbók um ómerktar undankomuleiðir á dögunum og höfðu á orði að Anton Helgi væri gömul kempa í íslenska ljóðaheiminum. Gengst hann við þeim titli? „Jah, er það ekki skemmtilegt bara? Ég byrjaði nú 19 ára og gaf út fyrstu bókina, það eru orðin ansi mörg ár síðan.“ Þetta er níunda bók Antons Helga en hann opnaði fyrir tveimur árum vef þar sem hægt er að lesa allar fyrri bækur hans auk fjölda annarra ljóða sem sum höfðu birst í tímaritum en önnur hvergi. „Það hefur komið mér gífurlega á óvart hvað margir rata inn á vefinn, ég hef örugglega fengið fleiri lesendur þar heldur en nokkurn tímann á bók.“

Anton hvetur skáld og útgefendur til að vera duglegri að nýta sér vefinn í útgáfu bókmennta. „Nú eru að alast upp kynslóðir sem eru aldrei með prentaðar bækur. Það er annar veruleiki. Ég fór í endurnýjun lífdaga þegar mér var gefinn kyndill fyrir fjórum árum, ég hafði mikla fordóma fyrir því, en síðan hefur lesturinn aukist um allan helming.“ Hann segir nýju bókina sína að sumu leyti gamaldags. „Ljóðmálið er stundum dálítið uppskrúfað og skrýtnar líkingar til að taka það frá veruleikanum.“ Lesandinn finnur sterkt fyrir gönguferðum í bókinni. „Já, það eru eilífar gönguferðir í þessu. Þær virðast nú ekki allar enda vel, og það er kannski mórallinn í þessu. Undir niðri verið að vara við og biðja fólk um að hugsa hvar það stígur niður fæti, í þessari stóru og miklu gönguferð sem við erum öll í.“

Egill Helgason ræddi við Anton Helga Jónsson í Kiljunni þar sem hann flutti einnig ljóð úr bókinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Nútímaleg ljóð frá gamalli kempu í fantaformi

Menningarefni

Árhringur og ómerktar undankomuleiðir

Bókmenntir

Svona heildarsafn kæmist ekki fyrir í bók

Bókmenntir

Anton Helgi hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör