
Enginn varaformaður í Miðflokknum
„Ég ætla bara að sinna borginni vel hér eftir sem hingað til og þarf þá ekki að hafa áhyggjur af flokksstarfinu. Það er bara fínt, það eru aðrir sem taka við því,“ segir Vigdís í samtali við fréttastofu.
Vigdís segist ekki vita hvaðan hugmyndin er komin um að leggja niður varaformannsembættið. „Sá sem gegnir embætti varaformanns í dag er formaður þingflokksins og samkvæmt þessum nýju samþykktum á formaður þingflokks Miðflokksins að vera talsmaður formanns í forföllum hans. Þannig að ég hef ekkert verið að velta því fyrir mér hvaðan þetta kemur,“ segir hún.
Hún hafnar því að breytingin hafi áhrif á stöðu hennar í flokknum. „Enga, ég stend í sömu sporum og fyrir þetta þing. Það vita allir fyrir hvað ég stend í Miðflokknum. En mitt framboð gekk út á að styrkja Miðflokkinn og fá nýja ásýnd. En þetta fór svona,“ segir hún.