Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki frekari smit á Austurlandi

21.11.2020 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Svo virðist sem smit sem greindist á Austurlandi í vikunni hafi ekki smitað út frá sér. Niðurstaða sýnatöku í kjölfar smitsins leiddi í ljós að sýnin voru öll neikvæð.

Fram til þessa hefur lítið smit verið á Austurlandi, og því hrukku eflaust margir við þegar smit greindist þar í vikunni. Um 30 börn auk starfsmanns í mötuneyti grunnskólans fóru í sóttkví, en hinn smitaði ekur skólabíl um sveitirnar í kringum Egilsstaði. Uppruni smitsins er enn óljós. Sýnin voru tekin í gær og reyndust öll neikvæð, en beðið er niðurstöðu úr einu sýni sem þurfti að endurtaka. 

Í tilkynningu aðgerðarstjórnar á Austurlandi segir að ekki séu vísbendingar um frekara smit í samfélaginu. Fólk er hvatt til að fara áfram varlega og  gæta sérstakrar varkárni á næstunni. Í því felst meðal annars að halda sig heima ef veikinda verður vart og leita þá ráðgjafar á heilsugæslu eða í síma 1700. 

Aðgerðastjórn áréttar einnig að í aðdraganda jóla að gæta vel hvert að öðru og hringja reglulega í ættingja, vini og kunningja, sér í lagi þá sem kunna að búa við einangrun, þá er dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum og svo framvegis.