Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Einhverjir þora kannski ekki að taka varaformannsslag“

21.11.2020 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Aukalandsþing Miðflokksins fer fram í dag og meðal þeirra tillaga sem laganefnd flokksins hefur lagt fram er að embætti varaformanns verði lagt niður og að þingflokksformaður gegni því hlutverki sem varaformaður hefur gegnt hingað til. Vigdís Hauksdóttir, oddviti flokksins í borgarstjórn í Reykjavík, er sú eina sem hefur tilkynnt um framboð gegn Gunnari Braga Sveinssyni, sitjandi varaformanni.

„Einhverjir þora kannski ekki að taka varaformannsslag,“ segir Vigdís í samtali við fréttastofu, spurð hvað hún telji að liggi að baki tillögunni. „Staðan er þannig núna að það er sami aðili sem er varaformaður Miðflokksins og er þingflokksformaður,“ bætir hún við. Gunnar Bragi Sveinsson gegnir báðum embættum eins og stendur. 

Vigdís segist hafa orðið svolítið hissa þegar hún sá tillöguna um að  leggja embættið niður. „Mér finnst að strúktúr allra flokkanna á Íslandi eigi að vera eins, en það er bara mín skoðun, ég er bara eitt atkvæði,“ bætir hún við. Hún feli Miðflokksmönnum um allt land að leggja mat á þessa tillögu sem aðrar. 

Atkvæðagreiðsla um lagabreytingar fer fram milli fjögur og fimm í dag. „Það er nú ekki búið að kjósa, svo við skulum nú sjá til,“ segir Vigdís. Hún segist ekki hafa tilfinningu fyrri því hvernig atkvæðagreiðslan fer. „Því við erum ekki að koma saman eins og á venjulegu landsþingi, við erum dreifð út um landið allt. En það eru fjölmargar breytingartillögur við þetta, þannig ég get ekkert sagt til um það hvernig þetta fer,“ segir hún.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV