Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Danskir bændur mótmæla minkamálinu á dráttarvélum

21.11.2020 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: DR - RÚV
Danskir bændur ætla að mótmæla aðgerðum danskra stjórnvalda í minkamálinu með því að tefja umferð í Kaupmannahöfn og í Árósum í dag. Það gera þeir með því að aka um göturnar á dráttarvélum.

Danska ríkisútvarpið greinir frá því að bændur hafi tekið sig saman og ætli að aka dráttarvélum í hundraðavís í gegnum Kaupmannahöfn og Árósa. Bændurnir vilja sýna samstöðu og mótmæla aðgerðum stjórnvalda í minkamálinu svokallaða þar sem ríkisstjórnin fyrirskipaði að öllum minkum í landinu skyldi lógað, vegna stökkbreyttrar kórónuveiru sem greindist í minkum.

Mogens Jensen, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, þurft að segja af sér vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki lagaheimild til þess að fyrirskipa að öllum minkum í landinu yrði lógað til að koma í veg fyrir að stökkbreytt kórónuveira bærist úr minkunum í fólk. Stjórnarandstaðan segir að öll ríkisstjórnin beri ábyrgð, ekki bara Jensen.

Danski ríkislögreglustjórinn Thorkild Fogde var kunnugt um að ólöglegt væri að aflífa smitaða minka í landinu áður en Mogens Jensen fyrrverandi landbúnaðarráðherra og Mette Frederiksen forsætisráðherra voru upplýst um málið.

Dómsmálaráðuneytið tilkynnti ríkislögreglunni þann 5. nóvember að lagaheimild skorti til að lóga minkunum. Þrátt fyrir það hafi lögregla hafist handa daginn eftir við að tilkynna minkabændum um að farga ætti öllum dýrum þeirra. Átta bændur af 250 hafi þvertekið fyrir að það yrði gert og hafa síðan fengið afsökunarbeiðni frá lögreglunni.

Margir stjórnmálamenn gagnrýna Fogde harðlega og krefjast rannsóknar á málinu sem hafi valdið lögreglunni álitshnekki. Mikilvægt sé að geta treyst lögreglunni segir Inger Støjberg þingmaður Venstre.

Alex Vanopslagh formaður Frjálslynda bandalagsins segist ekki geta fullyrt hvort lögreglustjóranum sé sætt áfram en ljóst sé að hann þurfi að svara til saka fyrir málið.

Hér má sjá myndskeið af aðgerum bænda í Kaupmannahöfn. Þess ber að geta að sjómenn taka einnig þátt í mótmælunum þar sem minkalógunin hefur einnig áhrif á þá. Fiskiafurðir eru nýttar til fóðurframleiðslu fyrir minka. 

Fréttin hefur verið uppfærð.