Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Dæmdur fyrir að myrða konu sína og brenna hana

21.11.2020 - 17:41
epa06484991 (L-R) father of murdered Alexia Daval, Jean-Pierre Fouillot, her husband Jonathann Daval and her mother Isabelle Fouillot giving a press conference at the city hall in Gray, eastern France, 02 November 2017 (issued 30 January 2018). Jonathan Daval (C) has been detained on 29 January 2018 by French police who made searches at his home, on suspicion of killing his wife. Alexia Daval's body was found charred three days after her disappearance on 28 October 2017 while gone jogging.  EPA-EFE/BRUNO GRANDJEAN / L'EST REPUBLICAIN FRANCE OUT, SHUTTERSTOCK OUT NO MAGAZINES
 Mynd: EPA - RÚV
Dómstóll í Frakklandi dæmdi í dag 36 ára karlamann í 25 ára fangelsi. Maðurinn var sakfelldur fyrir að myrða eiginkonu sína og brenna lík hennar í skóglendi. Málið vakti mikla athygli í frönsku samfélagi þegar það kom upp.

Jonathann Daval sýndi engin svipbrigði þegar dómur yfir honum var kveðinn upp í dag. Áður en dómurinn var kveðinn upp bað hann foreldra konunnar afsökunar á gjörðum sínum. Saksóknari fór fram á að Daval yrði dæmdur í lífstíðarfangelsi. Morðið var framið árið 2017. 

Hann játaði að hafa lamið konu sína , Alexiu, þar til að hún lést og að hafa brennt lík hennar í skóglendi. Hún var 29 ára. Jarðneskar leifar hennar fundust nærri bænum Gray-la-Ville í austurhluta Frakklands.  Daval hafði látið lýsa eftir eiginkonu sinniog sagði að hún hefði farið út að hlaupa en ekki skilað sér heim. 

Grét á opinberum samkomum til að fá samúð

Í kjölfar hvarfs hennar kom Daval maroft fram opinberlega og leyndi ekki tilfinningum sínum á blaðamannafundum og minningarathöfnum ásamt foreldrum konunnar. Þremur mánuðum síðar játaði hann að hafa beitt konuna ofbeldi með þeim afleiðingum að hún rak höfuðið í steyptan vegg og hann hafi síðan kyrkt hana. 

Daval var margsaga um atburðinn og dró á tímabili játningu sína til baka og kenndi mági sínum um voðaverkin. Hann dróg þær ásakanir svo til baka og gekkst við voðaverkinu. 

Stórt vandamál í frönsku samfélagi

Morðið vakti mikla athygli í frönsku samfélagi, sérstaklega á ofbeldi gegn konum í tengslum við #metoo byltinguna. Hátt í 10 þúsund manns tóku þátt í friðsamlegum mótmælum í heimabæ hjónanna í kjölfar morðsins.

Tíðni heimilisofbeldis í Frakklandi er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Þegar Emmuel Macron, forseti landsins, tók við embætti  sagði hann að staðan væri skömm fyrir landið og boðaði aðgerðir.