Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Breytir öllu að fá að mæta einu sinni á dag

21.11.2020 - 10:18
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, gaf í gær, á alþjóðadegi barna, út aðgerðaáætlun vegna kórónuveirunnar með yfirskriftinni "Afstýrum hörmungum fyrir heila kynslóð". Þar er efst á blaði að tryggja að öll börn hafi aðgang að menntun.

Steinunn Jakobsdóttir hjá UNICEF á Íslandi segir að faraldurinn hafi skapað neyðarástand í menntun barna um allan heim og afleiðingarnar geti orðið mjög alvarlegar, ekki síst í snauðari löndum og landsvæðum. 

Skólinn meira en staður til að læra

„Vissulega er mikill munur og aðstæður eru mismunandi, en ég held að heilt yfir þá hafi þessi faraldur alvarlegar afleiðingar á börn og ungmenni sama hvar þær eru. Afleiðingarnar eru kannski bara ólíkar. En það má ekki gleyma því að fyrir mörg börn bæði hér á Íslandi og úti í heimi að þá er skólinn ekki bara staður til að læra. Skólinn er líka staður þar sem þau finna fyrir öryggi, finna rútínu, samveru við vini og félaga. Það hefur gífurlega alvarlegar afleiðingar ef þetta er tekið í burtu í lengri tíma. Úti í heimi þá er skólinn líka staður þar sem börnin fá aðra lífsnauðsynlega þjónustu, eins og bólusetningar, sálræna aðstoð eða kannski einu heitu máltíðina þann daginn. Þannig að þetta eru miklar áskoranir". 

Megum ekki bregðast heilli kynslóð

Hafa stjórnvöld hér heima og erlendis staðið sig að þessu leyti? 

„Já og nei. Ég held að flestir séu að reyna að gera sitt besta. Það sem UNICEF hér heima og úti í heimi leggjum mikla áherslu á er að þegar verið er að fjalla um sóttvarnaraðgerðir þá  verður að vera forgangsatriði að hugsa um börn og ungmenni og tryggja þeirra menntun og þeirra rétt til menntunar. Það þarf að gera það miklu betur og það núna. Það má ekki gera þetta á morgun.  Við megum ekki bregðast heilli kynslóð því menntun þeirra er í húfi" segir Steinunn Jakobsdóttir hjá UNICEF í samtali við Spegilinn.

Hvorki börn né fullorðin

En hvað segja foreldrar hér á Íslandi? Silja Traustadóttir og Anna Björg Jónsdóttir eiga dætur í framhaldsskóla í Reykjavík . Þær eru 16 og 17 ára og því ólögráða. Silja og Anna Björg segja að þessi aldur hafi á vissan hátt gleymst í faraldrinum, krakkarnir séu hvorki börn né fullorðin og þær, sem mæður, gagnrýna stjórnvöld fyrir úrræðaleysi við að hjálpa þeim. 

Setið heima í fimm mánuði

Silja:  „Já okkur finnst að réttur barna til skólagöngu hafi verið takmarkaður um of.  Það hefur mátt skilja á menntamálaráðherra að allt kapp yrði lagt á það að skólunum yrði aftur komið af stað, þ.e.a.s. að staðkennsla tæki við. En það virkar ekki í reynd og þetta úrræði á að vera neyðarúrræði eins og landlæknir skrifaði um í ágætri grein í gær. Það hefur verið við lýði í fimm mánuði á þessu skólaári. 

Þegar þetta skólaár er búið þá hafa börn sem eru fædd t.d. 2003 setið heima í fimm mánuði. Það er erfitt hverju barni. Það er mikil einangrun sem felst í því og útilokun.  Og það er enn þá erfiðara ef það eru einhver önnur vandamál fyrir hendi. Þetta er erfiðara fyrir þá hópa sem standa höllum fæti. Þetta er erfitt fyrir öll börn. Svo bætist það við hjá þeim börnum sem eru 16-18 ára að þau mega heldur ekki stunda íþróttir. Þannig að í raun og veru er þessum börnum ekki ætlað að vera til akkúrat nú um stundir". 

Miklar áhyggjur af næstu önn

Anna Björg:  „Þessi aldurshópur hefur svolítið orðið út undan. Þau eru heldur ekkert að tjá sig neitt rosalega mikið. Sem foreldri hef ég verið mjög þolinmóð alla önnina og alltaf vonast til þess að þetta mundi nú lagast . Ég hef reynt að vera jákvæð, reynum þetta og gerum hitt, en svo sló út þegar nýjustu takmarkanirnar komu og það átti ekki að verða nein breyting. Það er skiljanlegt að menn fari ekki að breyta akkúrat núna, en við höfum stórar áhyggjur af næstu önn. Þetta er ástand sem getur ekki gengið til frambúðar". 

Þrjár annir án verklegrar reynslu

Hvað hefðuð þið viljað að gert hefði verið í haust?

Silja:  „Til að byrja með er rétt að taka fram að skólinn fór af stað með nokkra staðkennslu, en það hefur að mínu viti enginn full staðkennsla verið í neinum framhaldsskóla á þessari önn. Kannski annar hver dagur í bekkjarskólum, en í áfangaskólum hálfir dagar sitt á hvað í mesta lagi. Það hefði mátt leita leiða til þess að veita undanþágur t.d. fyrir þá sem eru að byrja. Bara það að kenna lífsleiknitímann á staðnum svo að þau fengju að vera innan um aðra nemendur einu sinni í viku. Það hefði skipt sköpum. Eða að leita leiða til þess að kenna verklegar greinar, efnafræði, eðlisfræði, líffræði. Að það líði ekki þrjár annir, sem er, eins og staðan er núna, helmingur tímans sem ungt fólk er í menntaskóla án þess að það öðlist nokkra verklega reynslu".

Kennarar gert sitt besta  

Snúast áhyggjur ykkar fyrst og fremst að félagslega þættinum hjá börnunum? 

Anna Björg:  „Já mjög mikið. Það verður bara að viðurkennast. Kennarar hafa verið að gera sitt allra besta. Ég dreg það ekki í efa í eina sekúndu. En það kemur bara ekkert í staðinn fyrir það að mæta og hitta aðra. Kennsla í fjarnámi er allt annars eðlis heldur en kennsla augliti til auglits. Það þýðir að þú þarft að vera með annars konar efni og öðruvísi nálgun. En það er gríðarlega erfitt að vera á hinum endanum og hlusta á fyrirlestur sem er hugsaður til þess að vera í stofu og tala við fólk fram og til baka á Teams. Það er bara mjög erfitt". 

Staðkennsla í nágrannalöndum í forgangi

Silja: „Við veltum því líka fyrir okkur hvaða skilaboð þetta sendir þessari kynslóð um það t.d. hvernig best er að taka á ótta. Er best að fela sig heima á bak við tölvuskjáinn?  Eða skilaboðin sem felast í nálgun yfirvalda á mikilvægi menntunar þegar við horfum á það að í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndum, Þýskalandi og Bretlandi hefur verið staðkennsla alla þessa önn. Þar er staðkennsla í algjörum forgangi. En hér er hægt að halda ýmsu öðru gangandi. Það er svigrúm fyrir fótboltamenn, eða kvikmyndagerðarfólk. En það er ekki svigrúm til að koma til móts við nemendur. Kannski vegna þess að þeir eiga enga öfluga þrýstihópa á bak við sig". 

Þurfa að hlusta á foreldrana

Anna Björg:  Það má heldur ekki gleyma því að 2/3 þeirra sem eru í framhaldsskóla eru samkvæmt lögum börn. Þau eru yngri en 18 ára. Þau eru á okkar forsjá, foreldranna. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að hlusta á það sem þau eru að segja. En það breytir ekki þeirri staðreynd að skólastjórnendur og yfirvöld verða líka að hlusta á það sem foreldrarnir hafa að segja.

Það erum við sem erum heima með börnunum. Það erum við sem horfum á þau í náttfötunum í rúminu. Öll regla fer út um gluggann.  Við þurfum að díla við þetta. Ég hef ekki enn hitt það foreldri síðustu vikur sem  hefur ekki gríðarlegar áhyggjur af menntskælingnum sínum eða framhaldsskólanemandanum. Það eru einhvern veginn allir foreldrar að reyna að gera sitt allra besta og reyna að vera jákvæðir, en þetta er svakalega erfitt". 

Oftúlkun á reglum?

Má skilja ykkur sem svo að þið metið líðan barnanna meira heldur en sóttvarnaraðgerðir yfirvalda?

Silja: „Nei engan veginn. Því er ekki þannig farið. En við veltum því fyrir okkur hvort verið sé að oftúlka ýmsar reglur. Hvort það er einhver algjör bókstafstrú sem hér ræður ríkjum". 

Anna Björg: „Við erum að kalla eftir lausnum og að menn hugsi aðeins út fyrir boxið. Við erum ekki að segja að það eigi ekki að sinna persónulegum sóttvörnum. Alls ekki. En við erum að segja að það hlýtur að vera hægt að finna einhverja aðra lausn heldur en vera bara heima fyrir framan tölvuskjá". 

Silja: „Og þegar að heimavistin er búin að vera svona hrikalega löng þá getur skipt sköpum að fá að mæta einu sinni á dag".

Hægt er að hlusta á viðtalið hér