Auðunn Gestsson blaðasali er fallinn frá

21.11.2020 - 22:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Auðunn Gestsson, sem betur var þekktur sem Auðunn blaðasali, lést síðastliðinn miðvikudag. Auðunn var fæddur í Flatey á Breiðafirði 27. febrúar 1938 og var álitinn elsti maður í heimi með Downs-heilkenni.

Vísir greindi frá andláti Auðuns en á RÚV var fjallað um það þegar hann fagnaði áttræðisafmæli sínu.

Þá var sagt frá því að Kolbrún Ragna Ragnarsdóttir, frænka hans, hefði gert tilraun til að skrá hann á vefsíðu heimsmetabókar Guinness án árangurs. Þar á bæ væri hætt að skrá aldur fólks með Downs-heilkenni enda væri litið á það sem fötlun.

Auðunn sagðist hafa verið hamingjusamur en þegar hann var sjö ára lést móðir hans og gekk Gerður systir hans honum í móðurstað. Auðunn bjó hjá henni til sjötugs en á sambýli eftir það.

Auðunn vildi frið og rólegheit, hlutaði á tónlist, útvarp og horfði á sjónvarp. Hann var sömuleiðis mikill áhugamaður um fótbolta og átti tugi treyja flestra fótboltaliða landsins.

Auðunn var landsþekktur og farsæll sem blaðasali um áratuga skeið en hann orti líka og gaf út ljóðabók árið 2013.