Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Aldrei fleiri hinsegin myrt í Bandaríkjunum en í ár

21.11.2020 - 03:53
Kona með fána transfólks á Captial Trans Pride í Washington, Bandaríkjunum, 2015.
Kona með fána transfólks á Captial Trans Pride í Washington, Bandaríkjunum, 2015. Mynd: Flickr - Ted Eytan
Aldrei áður hafa fleiri trans eða kynsegin fallið fyrir morðingjahendi í Bandaríkjunum en á þessu ári. Minnst 37 hafa verið myrt það sem af er árinu.

Í ársskýrslu Human Rights Campaign (HRC) er talað um ofbeldi gegn fólki sem fellur utan kynjatvíhyggjunnar sem faraldur hatursglæpa. Valdbeitingin sé keyrð áfram af fordómum og fælni sem kynt sé undir með orðræðu þeirra sem líkar ekki hve langt réttindabaráttan hefur náð.

HRC hefur fylgst með og rannsakað ofbeldi af þessu tagi síðan 2013. Á þeim sjö árum sem liðin eru hafa 202 trans og kynsegin verið myrt í Bandaríkjunum, þeldökkar transkonur eru í miklum meirihluta þeirra.

Í skýrslunni segir að þær telji 66% allra þeirra sem hafa verið myrt undanfarin sjö ár. Skýrslan nú leiðir einnig í ljós að meginhluti þeirra sem týndu lífinu í ár voru dökk á hörund.

Þremur dögum áður en skýrsla HRC kom út birti Bandaríska Alríkislögreglan (FBI) glæparannsóknaskýrslu sína. Hún sýnir að yfir sjö þúsund hatursglæpir voru skráðir í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Tæplega 20% glæpanna voru vegna kyns eða kynhneigðar. Undir hatursglæpi í Bandaríkjunum flokkast meðal annars árásir á fólk vegna trúarbragða, kynþáttar, kyns eða kynhneigðar.