Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vísar fullyrðingum ASÍ til föðurhúsanna

20.11.2020 - 12:45
Örtröð í Bónus á föstudeg eftir tilkynningu um samkomubann sem hefst aðfaranótt mánudags.
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Veiking krónunnar og hærri laun skýra hækkun vöruverðs á Íslandi, segir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu og vísar því á bug að matvöruverð hafi hækkað meira en tilefni er til. Styrking krónunnar muni lækka verðið.

Verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ sagði í fréttum í gær að matvara hefði hækkað meira en tilefni væri til, til dæmis hefðu ávextir og grænmeti hækkað mikið í verði, en einnig brauð og kornvara sem og mjólkurvörur.

„Ég ætla nú bara að benda verðlagseftirliti ASÍ á það að 1. desember  í fyrra stóð gengisvísitalan í 176, núna í dag stendur hún í um það bil 208. Það vita það allir að þau atriði sem hafa helst áhrif á verðlag innfluttrar vöru á Íslandi er gengi íslensku krónunnar og launin í landinu. Þarna sést hversu mikið gengi krónunnar hefur veikst á þessum tíma, það vita allir hverjar umsamdar launahækkanir hafa verið á liðnu ári. Þetta eru þeir tveir liðir sem hafa mest afgerandi áhrif á  verðlag í landinu. Í því ljósi er ekkert annað að gera en að vísa þessum fullyrðingum verðlagseftirlits ASÍ um að það sé ekki innistæða fyrir þessum hækkunum til föðurhúsanna,“ segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Launahækkanirnar vegi þungt í verðlagningu á innlendri vöru, sem einnig sé háð aðföngum erlendis frá.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í Kastljósi í gær að krónan væri byrjuð að styrkjast og hann hefði áhyggjur af verðhækkunum.

„Það hefur lengi verið á Íslandi, og ég held að við séum báðir nægjanlega gamlir til þess að muna eftir því, að þegar gengið var fellt þá gripu fyrirtæki tækifærið og hækkuðu verðið og sögðu að þetta væri allt saman gengisfelling og það er alveg möguleiki að það sé líka að gerast núna, að það séu meiri hækkanir og veikara gengi svo notað sem afsökun. Ég skal ekki segja um það, við þurfum að sjá það.“

Andrés segir að þetta sé sama gamla sagan. Fyrirtæki og verslun séu sökuð um að maka krókinn þegar gengi krónunnar gefur tilefni til, en það sé margsannað að verðlag þróist í takt við gengisbreytingar.

„Það verður engin breyting á því á meðan þessi gjaldmiðill er í notkun á Íslandi.“

Eins og fyrr segir hefur krónan styrkst að undanförnu.

„Það er bara sama svarið við því að eftir því sem hún styrkist það mun hafa áhrif, færa verðlag í hina áttina, það hefur alltaf gerst,“ segir Andrés Magnússon.
 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV