Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Verkmenntaskólann á Akureyri vantar tugi milljóna

20.11.2020 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Verkmenntaskólann á Akureyri vantar 40 milljónir króna á þessu ári og 60 á því næsta til að vera rekstrarhæfur. Skólameistari segir að margþættar ástæður séu fyrir hallanum. Ríkið hækkaði húsaleigu skólans um 157% á einu bretti á síðasta ári.

Bindur vonir við næstu fjárlög

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, segir að fjárhagsstaðan hafi verið slæm allt þetta ár. Hækkun á húsaleigu vegi þar þungt. Leigan fór úr 150 milljónum í 385 milljón en henni hafi þó fylgt hækkun á framlögum úr ríkissjóði.

„Hún sýnir sig þannig að það sé stóraukið fé inn i framhaldsskólakerfið sem fer svo að mestu leyti í að borga húsaleigu. Hún sýnir sig ekki í því að það sé hægt að kaupa tæki og tól eða bæta aðbúnað nemenda og starfsmanna inni í skólanum. Fjárhagsleg staða skólans hefur ekki verið góð allt þetta ár og það svo sem hefur ýmsar skýringar. Hvort að það er húsaleiga eða það að framlög með þeim nemendum stunda hér nám, hvort að þau eru að duga til eða ekki, en staðan í skólanum núna er ekki góð en við höfum nú höfum nú vonir um að það muni breytast þegar fjárlögin fara í gegn í lok mánaðarins."

„Rekstur á fjölbreyttum framhaldsskóla er ekkert einfaldur"

Hún segir að fjárhagsvandi skólans sé margþættur. Ekki sé hægt að kenna hækkun á húsaleigu um stöðuna.  „Ég meina rekstur á fjölbreyttum framhaldsskóla er ekkert einfaldur sko, það er langt því frá. Þannig að það að finna skýringuna er heldur ekkert einfalt. Þetta eru alls konar þættir sem spila þarna inn í og það er mjög ódýrt að segja að það hafi bara verið vegna þess að það var hækkuð húsaleiga og þess vegna séum við í þessum vanda."