
Tveggja ára nauðgunardómi snúið í Landsrétti
Í dómi Landsréttar segir að engin mæling liggi fyrir á áfengi í blóði eða þvagi brotaþola og aðeins byggt á lýsingum vitna um ölvun hennar. Þá segir í dómi Landsréttar að konan hafi ekki kært nauðgun fyrr en tæpu einu og hálfu ári eftir atvikið. Hún hafi í fyrstu ekki upplifað það sem nauðgun, og ekki áttað sig á því hversu alvarlegt þetta hefði verið fyrr en hún ræddi við vinkonu sína.
Einnig var farið yfir rafræn samskipti konunnar og mannsins. Héraðsdómur taldi yfirlýsingar mannsins þar ekki verða skýrðar öðruvísi en svo að hann væri að biðjast afsökunar á því að hafa haft við hana samræði þótt hún væri svo ölvuð að hún gæti ekki spornað við því. Héraðsdómur taldi aðrar skýringar á samskiptunum ótrúverðugar. Landsréttur metur samskiptin með öðrum hætti og segir að þar hafi maðurinn tekið fram að hann hefði þrisvar spurt konuna hvort hún vildi þetta, eins og það er orðað í dóminum. Þ´ahefði hann sagt fyrir dómi að hann hefði viljað biðjast afsökunar á því að brotaþoli hefði upplifað atvikið sem nauðgun. Hún hefði þá verið farin að ræða um að kæra hann og maðurinn viljað róa hana einhvern veginn niuðr.