Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Trans fólk á að geta valið búningsklefa

20.11.2020 - 18:09
Mynd:  / 
Formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs borgarinnar telur að samkvæmt nýjum lögum um kynrænt sjálfræði eigi trans fólk rétt á að fara í búningsklefa sundlauga í samræmi við kyn sitt óháð því hvort það hafi farið í leiðréttingaaðgerð. Í dag er minningardagur trans fólks.

Tillaga um að í vor verði farið í vitundarvakningarátak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi var samþykkt í gær á sameininglegum fundi nokkurra ráða og nefnda borgarinnar. Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, segir mikilvægt að hinir ýmsu hópar samfélagsins séu boðnir velkomnir hvort sem það er fólk með fötlun, trans fólk eða hinsegin fólk hvers konar.

„Það sem er mjög mikilvægt þegar kemur að fordómum, áreitni og ofbeldi er viðhorf viðkomandi einstaklings. Til að breyta viðhorfi þá er lykillinn fræðsla. Við teljum að svona vitundarvakningarátak sé til þess fallið að auka frjálslyndi og opna hug fólks í garð mismunandi hópa,“ segir  Dóra Björt.

Vilja ókyngreind salerni

Átakið beinist bæði að íbúum höfuðborgarinnar og starfsfólki borgarinnar. Í könnun meðal þeirra sem gerð var í upphafi þessa árs kemur fram að rösklega 13% upplifa áreiti af hálfu þeirra sem leita til borgarinnar og á sumum sviðum fer þetta hlutfall upp í 15%. Borgin hefur hrundið af stað ýmum verkefnum sem beinast að skilningi og fræðslu um stöðu hinsegin fólks. Þar má nefna svokallaða Regnbogavottun og markvissa fræðslu í skólum. Í dag er minningardagur trans fólks. Dóra Björt segir að vitundarvakningin í vor beinist ekki síst að trans fólki og réttinum þeirra. Borgin var í fyrra gerð afturreka með kynlaus salerni vegna reglugerðar frá árinu 1995 sem bannar slíkt fyrirkomulag.

„Við teljum að þetta stríði gegn lögum um kynrænt sjálfræði sem kveða á um það að einstaklingar geti sjálfir skilgreint kyn sitt og hafi réttindi í tak við það. Og við sem samfélag verðum að taka mið af því að við erum ekki lengur í þessu tvíhyggju samfélagi þar sem bara er gert ráð fyrir konum og körlum. Við viljum ekki að einstaklingar þurfi að velja hvor þeir séu konur eða karlar þegar þau ætla að gera svo einfaldan hlut að fara á salerni. Við viljum auðvelda líf fólks sem vinnur hjá Reykjavíkurborg og þess vegna viljum við gera þessi salerni ókyngreind,“ segir Dóra Björt.

Dóra segir að borgin sé að beita sér fyrir því að reglugerðinni frá 1995 verði breytt. Ekki bara vegna borgarstarfsmanna heldur til að allir vinnustaðir geti boðið upp á kynlaus salerni.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Dóra Björt Guðjóndsóttir

Eiga að geta valið búningsklefa

Flestar sundlaugar borgarinnar bjóða sér búningsklefa fyrir fólk sem hvorki kýs eða vill fara í kvenna- eða karlaklefa. Dóra Björt segir að eftir ítarlega skoðun sé það niðurstaða að í ljósi nýrra laga um kynrænt sjálfræði eigi trans konur og karlar rétt á að fara í búningsklefa sinna kynja.

„Vegna þess að það er kveðið á um það í þessum lögum að með því að geta breytt breytt kyni þínu hafi þú sömu réttindi sem fylgja því kyni. Þetta vitundarvakningarátak snýr einnig að því að gera okkur sem samfélag meðvituð um þessi réttindi. Við erum komin í burtu frá þessari kynjatvíhyggu. Við erum komin í nýtt samfélag og það er bara mikilvægt að við sem samfélag stöndum saman að þessum jákvæðu breytingum svo öllum hér geti liðið vel,“ segir Dóra Björt. 

Þýðir þetta að trans konur geti farið í kvennaklefa óháð því hvort kyn þeirra hefur verið leiðrétt?

„Já, eftir okkar skoðun þá er það okkar niðurstaða vegna þess að í þessum lögum kemur fram að þú hafir rétt yfir því hvernig þú skilgreinir þitt kyn og þína kynvitund. Og það fer ekki eftir því hvernig þín líffræðilegu kyneinkenni eru. Þannig að það er ekki kveðið á um að þú þurfir að fara í gegnum leiðréttingaferlið til að njóta þessara réttinda. Það er ekki allt trans fólk sem velur að fara í gegnum slíkt leiðréttingarferli. Það þýðir umtalsverðar breytingar á líkamanum og dramatískar aðgerðir og þetta er ekki það sem allir einstaklingar kjósa sér. Þannig að við teljum það algjörlega ljóst að það sé ekki þannig við getum neytt einstakling í gegnum aðgerðir eða leiðréttingarferli áður en þeir njóti þessara réttinda. Vegna þess að þegar þú ferð í gegnum slíka aðgerð þá ert þú að gera þér nánast ókleift að geta eignast börn. Þetta þýðir líka ófrjósemi í flest öllum tilvikum. Það er eitthvað sem er stór ákvörðun fyrir einstaklinga að taka og við sem samfélag getum ekki skilyrt aukin mannréttindi og mannréttindavernd við það sem okkur hentar. Það getur ekki verið þannig að af því að okkur líði betur með að trans kona líti nákvæmlega út eins og sís kona, að það séu einhverjar kvaðir við þau réttindi sem trans kona hefur í okkar samfélagi,“ segir Dóra Björt.

Glíma við alls konar fordóma

Minningardagur trans fólks er í dag. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir er formaður samtakanna Trans Íslands. Hún segir að erfitt sé að segja nákvæmlega hver staða trans fólks á Íslandi er meðal annars vegna þess að það skorti rannsóknir. Miðað við hennar reynslu sé trans fólk að berjast við ýmsar hindranir í íslensku samfélagi.

„Þrátt fyrir að við séum kannski komin framarlega þegar kemur að lagalegum réttindum í ákveðnum skilningi þá erum við enn þá að glíma við alls konar fordóma. Það getur til dæmis verið þegar fólk er að leita sér vinnu, þegar fólk er að nýta sér þjónustu, þegar fólk er fara í sund eða í líkamsræktarstöðvar eða þegar það er að fara út að skemmta sér um helgar. Trans fólk upplifir líka einelti í skólum og upplifir í raun mikla fordóma enn þá á Íslandi. Þó svo að við séum kannski heppin að vera ekki að glíma við mjög alvarlega ofbeldisglæpi eins og víðs vegar erlendis. Minningardagur trans fólks sem við erum að halda í dag snýst svo lítið um það að minnast trans fólks sem hefur orðið fyrir grófu ofbeldi eða að hefur verið myrt fyrir að vera trans,“ segir Ugla.

En breyttu lög um kynrænt sjálfræði miklu?

„Já, þau voru í rauninni mjög stórt skref fyrir réttindastöðu trans fólks á Íslandi. Breyttu mjög miklu sem var orðið ábótavant miðað við löndin í kringum okkur. Við erum loksins komin á þann stað að standa frekar framarlega að vissu leyti en það er enn þá ýmislegt sem Ísland þar að bæta sig í lagalegum skilningi. Það er þá kannski helst þegar kemur að mismunalöggjöfum og löggjöfum um hatursorðræðu. Og sömuleiðis um lagalega stöðu hinsegin hælisleitenda og flóttafólks. Þannig að það er enn þá ýmislegt lagalegt sem þarf að hafa í huga en þessi lög um kynrænt sjálfræði voru vissulega stórt skref og færðu okkur mun framar en við höfum verið undanfarin ár,“ segir Ugla.

Mynd með færslu
 Mynd: Sharon Kilgannon
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir

Veigra sér við að fara í sund

Ugla Stefanía fagnar samþykkt borgarinnar um vitundarvakningarátak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi. Hún snerti trans fólk sem verður fyrir áreitni og fordómum í sínu daglega lífi. Hún segir að trans fólk veigri sér við að fara í sund og í líkamsrækt. 

„Vegna þess að það óttast fordóma og áreiti í búningsklefum. Í mínum huga er það bara ákveðið lýðheilsuvandamál að minnihluta hópar séu að forðast líkamsrækt og hreyfingu vegna þess að þeir óttast að verða fyrir fordómum.

Trans fólk nýtir að stóru leyti annað hvort karla- eða kvennaklefa vegna þess að flest trans fólk er annað hvort konur eða karlar. Sérklefarnir eru kannski meira ætlaðir fyrir fólk sem er kynsegin. Þessir sérklefar eru líka nýttir af trans fólki sem treystir sér ekki til að fara í klefa með öðru fólki vegna þess að það óttast áreiti. Trans fólk er á alls konar stöðum í sínu ferli og lítur alls konar út. Og trans fólk sem fellur kannski ekki jafn auðveldlega í fjöldann er í meiri hættu að verða fyrir áreiti og ofbeldi sama á hvaða stað þau eru í sínu ferli. Hvort sem þau eru búin að fara í kynfæraaðgerðir eða hvort þau eru búin að vera lengi á hormónum. Þannig að ég held að trans fólk sé enn þá að glíma við það að bara þora að fara í sund heldur en að trans fólk sé að flykkjast í sund og bera líkama sinn á torg fyrir öllum. Ég held að það sé frekar að trans fólk forðist þessa staði og eigi í erfiðleikum með það að nýta sér þessa þjónustu,“ segir Ugla Stefanía.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV