Þurfum að hugsa þetta eins og körfuboltaleik

20.11.2020 - 08:54
Guðjón Hreinn Hauksson
 Mynd: Kennarasamband Íslands
Það styttist í annarlok í skólum landsins. Óhætt er að segja að þessi önn hafi verið óvenjuleg fyrir margra hluta sakir vegna samkomutakmarkana og heimakennslu. Framhaldsskólanemar finna fyrir auknum kvíða í aðdraganda prófa fyrir þessi jól og telja sig standa verr að vígi en áður.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara segir að í þeim skólum sem hafa lokið önnum nú þegar sé ekki að sjá að nemendur séu að falla meira í áföngum eða að námsárangur sé slakari.

„Það eru núna tveir skólar búnir að klára annir, það eru MS og FG sem hafa klárað fyrstu annir af þremur núna. Þar er fall ekki meira en venjulega, jafnvel minna. Meðaleinkunnir eru svipaðar eða hærri og skólasókn mælist meiri en æaður. Úr öðrum skólum má segja að miðannarmat sem fer fram um miðbik annar bendir ekki til þess að allt sé að fara á versta veg. Svo heilt yfir má segja að okkur sé að takast hið ótrúlega að tryggja nemendum sömu námsframvindu og áður, en líðanin, ég tek alveg undir hana, þetta er hrikalega erfitt allt saman.“

Hann vill þó ekki draga of miklar ályktanir strax. Nemendur hafi létt álagi á sér með því að fækka áföngum.

„Ég hef viljað hugsað þetta eins og körfuboltaleik, við erum vonandi að komast í fjórða leikhluta núna,  fara að ljúka leiknum á næstunni. Þá skiptir mjög miklu máli að gefast ekki upp, og leita sér aðstoðar. Það eru allir tilbúnir, kennarar, námsráðgjafar, stjórnendur til þess að halda utan um fólk. Maður veit af því að nemendur eru að létta álagi með því að skrá sig úr einum og einum áfanga, og það er ekkert stórslys.“ segir Guðjón.

Hann segir að álag á nemendur sé mikið þessa dagana þar sem þeir þurfa að taka próf í mörgum greinum og undirbúningur sé flóknari en ella þegar nemendur sitja heima og halda alfarið utan um undirbúninginn sjálfir. 

„Auðvitað eru margir í vandræðum það er alveg satt og rétt. En kannski verður það sem við lærum helst á þessu er seigla og úthald.“ segir Guðjón.

Guðjón segir að þó að ríkur vilji sé til að framhaldsskólar verði opnaðir þá þurfi að fara með gát.

„Við viljum ekki að skólarnir séu opnaðir á svig við tilmæli sóttvarnarlæknis. Okkur finnst ekki eiga að fara of hratt í þetta. Við þurfum að klára þessa önn að mestu leiti eins og hún hefur verið undanfarnar vikur.“ segir Guðjón Hreinn.

Rætt var við Guðjón Hrein í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.