Sprelllifandi og alls ekki gjaldþrota

Mynd: ÍSTÓN / RÚV

Sprelllifandi og alls ekki gjaldþrota

20.11.2020 - 13:10

Höfundar

Það brá mörgum í brún í gærmorgun þegar Morgunblaðið birti frétt þess efnis að Stuðmenn væru gjaldþrota. Ekki var þó átt við hina sívinsælu hljómsveit heldur rafverktakafyrirtæki. Jakob Frímann Magnússon, einn af forsprökkum hljómsveitarinnar Stuðmanna, segir fréttina sorglega vísbendingu um stöðu Morgunblaðsins. 

Jakobi Frímanni var ekki skemmt yfir fréttinni og segir hana í raun vera sorgarfrétt. Sorgin beinist þó að mestu að Morgunblaðinu, að sögn Jakobs Frímanns. „Umhyggjan og sorgin er mest gagnvart Morgunblaðinu sem freistast í þessa smellasamkeppni sem hefur nú aðallega verið á vettvangi gulu pressunar og unglinganna sem vinna þar og fá borgað ef þau búa til krassandi smell. Það hefur auðvitað ekki verið frétt hingað til ef rafverktakafyrirtæki fara á hausinn,” segir Jakob Frímann. 

Umrætt rafverktakafyrirtæki var ekki á ratsjánni hjá Jakobi Frímanni og hafði hann aldrei heyrt um fyrirtækið. Nú þegar fyrirtækið hættir störfum með þessum hætti villi Morgunblaðið fólki sýn með uppslætti sem þessum. „Mér finnst þetta bara sorglegt. Ég hélt að Morgunblaðið myndi aldrei leggjast svona lágt,” segir Jakob Frímann. Hann hefur verið dyggur lesandi Morgunblaðsins allt frá því að hann varð læs og segist ávallt hafa talið Morgunblaðið njóta virðingar. „Þá finnst mér vísbendingin um þann stað sem þessi ágæti fjölmiðill er komin á vera sorgleg. Það getur vel verið að það sé mjög hart í heimi í Hádegismóunum, að menn þurfa að grípa alla smelli sem gefast,” segir Jakob Frímann. 

Hljómsveitin er þó alls ekki gjaldþrota og Jakob Frímann segir að mögulega sé þarna komin uppspretta að næsta lagi Stuðmanna, „Gjaldþrota í Morgunblaðinu". Nóg sé fram undan hjá hljómsveitinni, meðal annars tónleikar í Hörpu sem hefur margoft þurft að fresta sökum samkomutakmarkana. Tónleikarnir eru nú fyrirhugaðir 9. október á næsta ári. „Við erum bjartsýnir á að það fái að standa og bjartsýnir á bóluefni og endurreisn lands og lýðs. Að veiran sé þá búin að ljúka keppni og kannski verður hún lýst gjaldþrota áður en yfir lýkur,“ segir Jakob Frímann.