Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sigur Joes Bidens í Georgíu staðfestur

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - AP/EPA
Kjörstjórn í Georgíu í Bandaríkjunum hefur staðfest eftir endurtalningu atkvæða að Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, hafði betur en Donald Trump í forsetakosningum í ríkinu. Munurinn á fylgi þeirra var þó enn minni en áður hafði verið tilkynnt. Kæru Repúblikana vegna talningar í Arizona hefur verið vísað frá.

Kjörstjórn í Georgíu tilkynnti seint í gærkvöld að Joe Biden hefði sigrað Donald Trump með 12.284 atkvæða mun. Samkvæmt fyrri talningu var munurinn rúmlega fjórtán þúsund atkvæði. Trump og lögfræðingateymi hans kærðu niðurstöðuna og kröfðust endurtalningar. Orðið var við því og um það bil fimm milljónir atkvæða voru handtaldar. 

Máli vísað frá í Arizona

Donald Trump hefur enn ekki játað ósigur í kosningunum 3. nóvember. Lögfræðingar hans halda áfram að kæra niðurstöðurnar í einstökum ríkjum og sýslum. Dómari í Phoenix í Arizona vísaði í gær frá kæru Repúblikana vegna talningar í Maricopa-sýslu með þeim orðum að þar hefði ekkert óeðlilegt fundist. Rudi Giuliani, aðallögfræðingur Trumps, sagði á fundi með fréttamönnum í gær, að áfram yrði kært, enda hefðu vondir menn stolið sigrinum frá skjólstæðingi hans. 

Ábyrgðarlausasti forseti í sögu Bandaríkjanna

Joe Biden sagði á fjarfundi í gær með ríkisstjórum að Trump væri með framferði sínu að senda afar skaðleg skilaboð til umheimsins um það hvernig lýðræði virkar. Hans ætti eftir að verða minnst sem ábyrgðarlausasta forsetans í sögu Bandaríkjanna. Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, tók í sama streng og Biden í Twitter-færslu í gærkvöld. Erfitt væri að ímynda sér eitthvað verra og ólýðræðislegra en framferði sitjandi Bandaríkjaforseta.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV