Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja mikilvægt að öll börn í heiminum fái sama rétt

Mynd: RÚV / RÚV
„Það er sumt sem fullorðið fólk fattar ekki en börn geta fattað," segir níu ára nemandi í Giljaskóla á Akureyri. Skólinn fékk í dag viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Þá fékk Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður, viðurkenningu Barnaheilla.

Fáni UNICEF blakti við Giljaskóla í morgun enda hátíðisdagur þar í dag. Nemendur og starfsfólk skólans hafa unnið að því síðustu mánuði að uppfylla skyldur Réttindaskóla UNICEF. En það má ekki halda samkomur í heimsfaraldri, því fagnaði hver bekkur í sinni stofu og fékk viðurkenningar í tilefni dagsins.

Hafa lært hvað Barnasáttmálinn skiptir miklu máli

Og nú segjast krakkarnir skilja vel hvað Barnasáttmálinn skiptir miklu máli. „Það skiptir nefnilega máli að öll börn fái sama rétt í öllum heiminum. Ekki bara í þessum bæ eða á einhverju landi og ekki bara fullorðnir heldur líka börn,“ segir Brynja Dís Axelsdóttir, nemandi í 4. bekk.

Mikilvægast að börn verði ekki veik og þeim líði vel 

Ívan Elí Ólafsson, nemandi í 5. bekk, finnst mikilvægustu réttindin felast í því að börn fái mat, heimili og húsaskjól og þessháttar. En einnig hreint vatn og læknisþjónustu.  „Svo að börn verði ekki veik og líði vel og allskonar þannig.“

Fullorðnir haldi stundum að börn viti ekki nógu mikið

Aldís Ósk Arnaldsdóttir, bekkjasystir hans, segir mikilvægt að hlusta á börn. „Út af því að börnin eiga rétt á því að stjórna sumu og fullorðnir eiga ekki að stjórnast alveg yfir börnum.“
„Það er kannski eitthvað sem fullorðnir hafa gleymt,“ segir Ívan Elí. „Eða halda bara stundum að börn viti ekki jafn mikið af því að fullorðnir eru eldri. En það er ekki endilega alltaf alveg satt.“ Og Brynja Dís segir að sumt sem fullorðið fólk fattar ekki, en börn fattað.

Verðlaunaður fyrir margra ára starf í þágu barna

En á þessum alþjóðadegi barna afhenti forseti Íslands viðurkenningu Barnaheilla. Þau hlaut Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður, sem hefur varið stórum hluta starfsævinnar í leit að týndum börnum. Hann segir það alltaf þýðingu að fá viðurkenningu fyrir starfið sitt. „Það vill til að ég fæ reglulega góða endurgjöf bæði frá foreldrum og unglingunum sem ég er að leita að.“ Og sér sé efst í huga þakklæti fyrir það traust sem honum er sýnt. „Bæði af vinnuveitandanum mínum og síðan foreldrunum og ungmennunum, að geta unnið þetta starf. Þetta átti að vera til eins árs, ég er búinn með sex og byrjaður á sjöunda.“