Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ríkislögreglustjóri vissi um ólögmæti aflífana

20.11.2020 - 04:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Danski ríkislögreglustjórinn Thorkild Fogde er í bobba en komið hefur í ljós að honum var kunnugt um að ólöglegt væri að aflífa smitaða minka í landinu áður en Mogens Jensen fyrrverandi landbúnaðarráðherra og Mette Frederiksen forsætisráðherra voru upplýst um málið.

Það var 4. nóvember að Mette Frederiksen tilkynnti þá ákvörðun að vegna uppgötvunar stökkbreytts afbrigðis kórónuveiru í minkum yrði að aflífa öll slík dýr í landinu.

Á vef DR er greint frá því að dómsmálaráðuneytið hefði tilkynnt ríkislögreglunni þann 5. nóvember að lagaheimild skorti til að lóga minkunum. Þrátt fyrir það hafi lögregla hafist handa daginn eftir við að tilkynna minkabændum um að farga ætti öllum dýrum þeirra. Átta bændur af 250 hafi þvertekið fyrir að það yrði gert og hafa síðan fengið afsökunarbeiðni frá lögreglunni.

Margir stjórnmálamenn gagnrýna Fogde harðlega og krefjast rannsóknar á málinu sem hafi valdið lögreglunni álitshnekki. Mikilvægt sé að geta treyst lögreglunni segir Inger Støjberg þingmaður Venstre.

Alex Vanopslagh formaður Frjálslynda bandalagsins segist ekki geta fullyrt hvort lögreglustjóranum sé sætt áfram en ljóst sé að hann þurfi að svara til saka fyrir málið.