Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nauðgunin hafi „valdið þeim báðum miklu áfalli“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ungur maður var í dag dæmdur fyrir nauðgun í Héraðsdómi Vestfjarða. Hann hlaut átján mánaða dóm en vegna þess meðal annars hversu brotið markaði djúp spor í hans eigið sálarlíf, ekki aðeins brotaþola, og olli honum miklu áfalli, er dómurinn skilorðsbundinn til fimm ára. Hann var einnig dæmdur til að greiða brotaþola 1,5 milljónir í bætur.

Braut gegn sofandi vinkonu sinni

Maðurinn var 22 ára þegar hann braut á bestu vinkonu sinni, að því er segir í dómnum, sem þá var 24 ára. Í vitnisburði brotaþola kemur fram að hún og sá dæmdi hafi legið í hjónarúmi og hann brotið á henni eftir að hún var sofnuð. Hann segist ekki hafa vitað að hún væri sofandi og því ekki áttað sig á því að hún gæti ekki spornað gegn verknaðnum.

Dómurinn byggir meðal annars á vitnisburði brotaþola, systur hennar, föður, móður, fyrrverandi tengdamóður hennar, vinkonu hennar, læknis og hjúkrunarfræðings sem hún leitaði til. Framburður þeirra styðja frásögn brotaþola, sem hefur verið stöðugur. 

„Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt telur dómurinn ekkert fram komið í málinu, sem gefið hafi ákærða réttmæta ástæðu til að ætla að til kynferðislegra athafna myndi koma milli hans og brotaþola þegar hún lagðist upp í hjónarúmið við hlið hans,“ segir í dómnum, og að frásagnir um sterkt vinsamband styðji ályktunina.

Ákærði rauf traust brotaþola

„Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brotaþoli leit á ákærða sem trúnaðarvin, treysti honum í hvívetna og átti sér einskis ills von þegar hún leyfði honum að gista í hjónarúmi hennar. Ákærði rauf þetta traust þegar hann notfærði sér svefndrunga brotaþola til að hafa við hana kynmök í rúminu,“ segir í dómnum og að af framburði brotaþola og vitna sé ljóst að framferði ákærða hafi valdið brotaþola verulegri vanlíðan. Ákærði eigi sér engar málsbætur og verði dæmdur í 18 mánaða fangelsi. 

„Eftir standa tveir laskaðir einstaklingar“

Þá kemur fram að rétt þyki að fresta fullnustu refsingarinnar þannig að hún falli niður að liðnum fimm árum frá dómsbirtingu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Sú ákvörðun er meðal annars byggð á því að brotið hafi markað djúp spor í sálarlíf hans, rétt eins og hennar og að bæði hafi þau verið „gjörsamlega niðurbrotin“ þegar þau gáfu skýrslu fyrir dómi. Vinskapur þeirra hafi verið náinn og þeim báðum dýrmætur. „Þau áttu trúnað hvors annars og litu á hvort annað sem sinn besta vin.“

„Og er það álit dómsins að eftir standi tveir laskaðir einstaklingar, sem líði enn í dag afskaplega illa og muni seint jafna sig á því sem ákærði gerði umrædda nótt,“ segir í dómnum. „Að öllu þessu gættu hefur dómurinn, eins og hér stendur sérstaklega á, verulegar efasemdir um að afplánun refsingar geti þjónað sérstökum hagsmunum brotaþola eða almennum hagsmunum annarra,“ segir jafnframt og að því þyki rétt að fresta fullnustu refsingar þannig að hún falli niður að liðnu fimm árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV