Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mánaðarlangt útgöngubann fyrirskipað í Kaliforníu-ríki

Mynd með færslu
 Mynd: Nserrano - Wikimedia Commons
Útgöngubann tekur gildi í Kaliforníu-ríki næstkomandi laugardag og verður í gildi til 21. desember. Nýjum kórónuveirutilfellum hefur fjölgað mjög þar undarfarnar vikur.

Gavin Newsom ríkisstjóri segir mikilvægt að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins sem fer nú sem eldur í sinu um ríkið. „Við höfum gert það áður og verðum að gera það aftur,“ segir hann.

Brýnt sé að minnka samneyti fólks sem verða má og draga þannig úr spítalainnlögnum áður en ekkert verður við ráðið segir Newsom. Stjórnvöld í Kaliforníu segja kórónuveirutilfellum hafa fjölgað um 50% það sem af er nóvember sem vekur ugg um að sjúkrahús kunni að yfirfyllast.

Erica Pan, settur yfirmaður heilbrigðismála í ríkinu, staðfestir þann ótta og segir að verði ekki brugðist hratt og örugglega við tefli það mannslífum í hættu. Loks bergmálar hún orð ríkisstjórans um að viðbrögðin á vormánuðum hafi tekist vel og því sé hægt að endurtaka þau nú. 

Mark Ghaly, heilbrigðisráðherra Kaliforníu, boðar harkalegri aðgerðir takist ekki að draga úr útbreiðslu veirunnar með þeim aðgerðum sem nú standa til. Með því að bregðast ákveðið við nú verði hægt að komast hjá því að grípa til harðari aðgerða síðar.

Útgöngubannið sem gildir frá tíu að kvöldi til fimm að morgni hvern dag, nær til um níutíuogfjögurra prósenta íbúa ríkisins. Það gildir ekki í San Francisco en þar hefur veitingahúsum verið lokað og ýmis önnur starfsemi takmörkuð mjög, þar á meðal líkamsræktarstöðva.