
Í fyrradag tók gildi sex daga strangt útgöngubann í Suður-Ástralíu. Það var sett á með stuttum fyrirvara því heilbrigðisyfirvöld máttu engan tíma missa. Í dag var útgöngubannið dregið til baka eftir að upp komst um lygi eins manns. „Ég er miklu meira en öskureiður yfir hegðun þessa einstaklings“, sagði Steven Marshall á blaðamannafundi í dag. Eiginhagsmunasemi þessa manns hafi sett alla í fylkinu í erfiða stöðu.
Málið atvikaðist þannig að upp kom hópsmit tengt pítsastað. Einn sem smitaðist sagðist hafa skroppið aðeins inn á staðinn, keypt pítsu og tekið hana með heim til sín. Heilbrigðisyfirvöld fóru því strax að vinna út frá því að þarna væri bráðsmitandi afbrigði af veirunni á ferð og fjölmargir viðskiptavinir veitingastaðarins hafi þannig orðið útsettir fyrir smiti. Síðar kom á daginn að maðurinn hafði starfað á veitingastaðnum en ekki aðeins keypt pítsu.