Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landamæri áfram lokuð

20.11.2020 - 01:34
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Landamæri Bandaríkjanna að Kanada og Mexíkó verða lokuð áfram til 21. desember næstkomandi. Chad Wolf heimavarnarráðherra Bandaríkjanna tilkynnti fyrr í dag að þessar ráðstafanir væru nauðsynlegar til að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hann sagði að ríkin þrjú ynnu jafnframt náið saman að því að tryggja nauðsynlega flutninga millli landanna. Bill Blair ráðherra almannaöryggis í Kanada staðfestir ákvörðunina. 

Hann skrifaði á Twitter í dag að allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar miðuðu að því að tryggja Kanadamönnum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu og -öryggi.

Landamærum Bandaríkjanna og Kanada, heimsins lengstu landamærum, var lokað í mars og lokuninni hefur verið framlengt mánaðarlega síðan. Aðeins er heimilað að flytja vörur milli ríkjanna og allra nauðsynlegustu ferðalög hafa verið heimiluð.

Faraldurinn stigmagnast enn í Bandaríkjunum þar sem vel á tólftu milljón tilfella hafa verið skráð og yfir 250 þúsund hafa látist. Tæplega 100 þúsund dauðsföll eru skráð í Mexíkó og ríflega 11 þúsund í Kanada.