Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hækka grunnatvinnuleysisbætur um 2,5% til viðbótar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grunnatvinnuleysisbætur hækka um 2,5 prósent til viðbótar þeirri 3,6 prósenta hækkun sem er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Þetta kom fram á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar sem hófst klukkan þrjú í dag. Með þessu nemur heildarhækkun grunnbóta 6,2 prósentum og þær verða því 307.403 kr. 

Þá hækka greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda um sex prósent í stað fjögurra prósenta eins og áður var gert ráð fyrir. Auk þess verður greidd  desemberuppbót til þeirra sem eru í staðfestri atvinnuleit sem hljóðar uppá rúmar 86 þúsund krónur. 

Viðspyrnustyrkir

Á fundinum kynntu ráðherrarnir einnig sérstaka viðspyrnustyrki sem eru hugsaðir sem framhald af tekjufallsstyrkjum og ætlað að aðstoða fyrirtæki við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa faraldursins gætir. Styrkirnir eiga að vera aðgengilegir öllu tekjuskattskyldum rekstraraðilum sem verða fyrir  a.m.k. 60% tekjufalli, óháð rekstrarformi fyrirtækjanna. 

Fyrir rekstraraðila með tekjufall á bilinu 60-80%: 

  • Viðspyrnustyrkur getur orðið 400 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi
  • Getur hæst orðið 2 milljónir króna

Fyrir rekstraraðila með tekjufall upp á 80%-100% 

  • Viðspyrnustyrkur getur orðið 500 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi
  • Getur hæst orðið 2,5 milljónir króna.  

Styrkfjárhæðir taka mið af rekstrarkostnaði en geta þó ekki orðið hærri en það tekjufall sem varð á tímabilinu sem er undir. 

Stuðningur við barnafjölskyldur

Skerðingarmörk í barnabótakerfinu verða hækkuð og þau látin fylgja þróun lægstu launa. Á vef stjórnarráðsins segir að breytingin eigi að skila einstæðum foreldrum með tvö börn, með 350 þúsund til 580 þúsund krónur í tekjur á mánuði, 30 þúsund króna hækkun barnabóta á ári. Fjölskylda með samanlagðar tekjur upp á 700 til 920 þúsund krónur á mánuði fái 60 þúsund króna hærri barnabætur á næsta ári. 

Varanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfinu

Þá var tilkynnt um 50 þúsund króna eingreiðslu til þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem eiga rétt á lífeyri á árinu fyrir 18. desember, til viðbótar við desemberuppbót sem jafnframt kemur til greiðslu í desember.

Á fundinum kom auk þess fram að gerðar yrðu varanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga með því að draga úr innbyrðis skerðingum. Gert er ráð fyrir að breytingin skili tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum tæplega 8.000 króna viðbótarhækkun á  mánuði umfram fyrirhugaða hækkun upp á 3,5 prósent sem kveðið er á um í fjárlagafrumvarpinu. Þannig geti bætur til tekjulægstu örorkulífeyrisþeganna hækkað um tæpar 20 þúsund krónur næstu áramót. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV