Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fimm skítköld og slök fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Beggars - Better Off Alone

Fimm skítköld og slök fyrir helgina

20.11.2020 - 13:20

Höfundar

Það er dansvæn og vinaleg stemmning í Fimmunni að þessu sinni og full ástæða fyrir þá sem hafa verið að æfa nýja dansa í kyrrþey að halda sýningu fyrir nánustu fjölskyldu. Í boðinu að þessu sinni eru Myd og freðni vinur hans Mac DeMarco, kvennakvartettinn Goat Girl í krísu, rafpoppsveitin Purity Rings sem skýtur undir belti, Bicep með dansvæna poppneglu og loks minning um mann frá Daniel Avery.

Myd ásamt Mac DeMarco - Moving Men

Franski pródúserinn Myd sem er á jötu hjá Ed Banger Records fékk sorgmædda indístónerinn Mac DeMarco til þess að syngja fyrir sig í sínu nýjasta lagi Moving Men. Lagið og teiknimyndamyndbandið passar DeMarco fullkomlega enda grípandi flautað indípopp um bólufreðna og þybbna flutningamenn.


Goat Girl - Sad Cowboy

Súru stelpurnar frá Suður-London, kvartettinn Goat Girl, hafa sent frá sér lagið Sad Cowboy sem verður að finna á plötu þeirra, On All Fours, sem kemur út á Rough Trade í byrjun næsta árs. Lagið fjallar um að missa endurtekið tökin á raunveruleikanum í heimi sem þú upplifir sem endalausa martröð, sem segir manni að COVID sé líklega að hafa smá áhrif á stemmninguna hjá þeim þarna í Londres.


Purity Ring - Better Off Alone

Elektrópopp-dúettinn Purity Ring sendi frá sér, fyrir rétt rúmum mánuði, lagið Better Off Alone sem er þeirra útgáfa af poppblöðru Alice DJ. Lagið Better Off Alone er mjög þekkt sakbitin sæla frá tíunda áratugnum sem sumir voru of töff fyrir. Það er til fólk sem myndi jafnvel halda því fram að það væri bannað að gera upp svona blöðru, en ekki Purity Ring - þau vilja meina að lagið sé grunnurinn af allri þeirra tónlist.


Bicep ft Clara La San - Saku

Belfast dúettinn Bicep heldur áfram að eiga stórmót á pestarárinu mikla 2020 og nú senda þeir frá sér lagið Saku af væntanlegri breiðskífu sinni sem kemur út á Ninja Tune í byrjun næsta árs. Með þeim félögum í laginu er söngkonan Clara La San sem er kannski þekktust meðal nörda fyrir að vinna með Warp bandinu Yves Tumor á plötu þeirra Heaven to a Tortured Mind sem kom út fyrr á árinu.


Daniel Avery - Lone Swordsman

Lagið Lone Swordsman kom út í byrjun september og er eitt af þessum lögum sem sækir á mann og maður dettur í að hlusta á aftur og aftur. Daniel Avery tileinkar lagið upptökustjóranum, erkisnillingnum og plötusnúðnum Andrew Weatherall sem féll frá í byrjun árs 56 ára að aldri.


Fimman á Spottanum