Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Breyta gömlu verkstæði í hjólaskautahöll

20.11.2020 - 19:32
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV/Landinn
Hjólaskautafélagið á Íslandi hyggst opna hjólaskautahöll í gömlu iðnaðarhúsnæði við Sævarhöfða í Reykjavík. Félagið hefur hafið fjármögnun til að hægt sé að klára verkefnið fyrir lok þessa árs.

 

Þrátt fyrir að mikið verk sé óunnið eru stelpurnar í Hjólaskautafélaginu þegar byrjaðar að prófa sig áfram í húsnæðinu sem hýsti til margra ára verkstæði Björgunar.

Húsnæðið er í eigu Reykjavíkurborgar sem leigir það út tímabundið til skapandi verkefna.

Félagar í Hjólaskautafélaginu og vinir og vandamenn hafa að undanförnu unnið að því að spúla, hreinsa og laga það sem laga þarf til að húsnæðið geti þjónað nýju hlutverki.

Lena Margrét Aradóttir formaður húsnæðisnefndar Hjólaskautafélagsins segir að stærsta verkefnið verði að koma gólfinu í lag.

„Við reynum að gera þetta eins hrátt og hægt er. Við erum ekki að fara að parketleggja því það verður of kostnaðarsamt. Við ætlum að steypa nýja plötu og vélslípa hana. Það mun gefa okkur nógu slétt og jafnt yfirborð til þess að skauta á. Við erum búnar að fá rosalega góðan stuðning frá bæði efnissölum og verktökum. Mikinn afslátt á þeirra vinnu og efni. Og fyrir vikið náðum við kostnaðaráætlun okkar niður í 2,5 milljón alveg algjört lágmark bara fyrir gólfið. Þá er ekki talið inn það sem þarf að gera fyrir snyrtingu og búningsklefa og annað sem okkur langar til þess að gera,“ segir Lena.

Hjólaskautafélagið heldur úti keppnisliði í hjólaskautaati en íþróttin hefur verið stunduð hér á landi í tæp 10 ár. Markmiðið er nota húsnæðið til æfinga og bjóða öðrum félögum upp á aðstöðu, en einnig opna hjólaskautadiskó.

„Hugmyndin er að bæta við afþreyingarflóru höfuðborgarsvæðisins sem er bæði fjölskylduvæn og hjólastólanotendavæn. Fólk fer þá ekki bara í húsdýragarðinn og í trampólíngarða heldur getur það líka nýtt sér það að fara í hjólaskautahöll. Með börnin með vinahópnum, með saumaklúbbnum. Prófa eitthvað öðruvísi. Klæða sig upp í einhvern glamúr '70 galla og dansa við diskóljós á hjólaskautum,“ segir Lena.

Félagið hefur hafið söfnun á Karolinafund til að hægt verði að klára verkefnið fyrir áramót.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV